Louis Jadot Chablis 2019

 

 

Víngarðurinn segir;

Vínin frá Louis Jadot hafa verið reglulegir gestir Víngarðsins undanfarin fimm ár og í fljótu bragði reiknast mér til að ég hafi fjallað um ellefu önnur vín frá þeim á þeim tíma. Flest þeirra eru prýðileg en þegar litið er til baka þá verð ég að viðurkenna að yfirhöfuð er ég að gefa hvítu vínunum frá þeim örlítið betri einkunnir en þeim rauðu. Eðli málsins samkvæmt hef ég fengið mest af ódýru vínunum inn á borð (aðallega Bourg Pinot Noir og Bourgogne Chardonnay), sem hafa stundum verið ágæt og stundum góð og inn á milli hef ég rekist á frábæra árganga (bæði rauðu og hvítu Bourgogne-vínin fengu ****+ 2018, sem er sennilega sá besti sem ég hef prófað) . Einhverra hluta vegna er árgangurinn 2019 í Chablis alveg sérlega góður núna og slær jafnvel við hinum hvíta Couvent des Jacobines 2018, sem gerir þetta vín eitt af bestu kaupunum frá Jadot nú um stundir.

Kobrand samsteypan, sem er eigandi Louis Jadot, á, mér vitandi, ekki neinar vínekrur í Chablis en gerir, rétt einsog afar margir framleiðendur, vín úr þrúgum sem þeir kaupa af bændum. Það getur verið kostur og það getur verið galli því ef maður á meðalgóðar vínekrur í frekar slöku ári þá neyðist maður samt til að gera vín úr þeim þrúgum sem spretta og vínið verður aldrei sérstaklega gott. Ef maður hinsvegar kaupir þrúgur, þá er líklegra að maður finni það besta sem er á markaðnum og geri að minnsta kosti sæmilegt vín. Ef árgangurinn er góður þá getur maður valið úr bestu þrúgunum og útkoman getur hæglega verið framúrskarandi.

Sérstaða Chablis innan Búrgúndar er jarðvegurinn, en bestu vínin koma af ekrum þar sem gamall sjávarbotn frá Krítartímanum er undirstaða víngarðanna. Þetta gefur vínunum afar sérstæða byggingu og oft töluverðan steinefnakeim sem er verulega ólíkur öðrum hvítvínum Búrgúndar. Það er samt sem áður þrúgan Chardonnay sem sameinar þessi svæði og því vel hægt að bera vínin saman.

Þetta vín býr yfir gylltum lit og hefur meðalopna angan þar sem greina má soðna eplamús, hunang, hvít blóm, kalkrík steinefni, peru, sítrónusmjör og búttaða, laktíska tóna sem minna á rjóma. Þetta er afar dæmigerður ilmur af ungum Chablis, en þessi vín eru þekkt fyrir að geta þroskast nokkuð lengi og þá breytist ilmvöndur þeirra vissulega í átt til meiri steinefna. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með afar góða og frísklega sýru og hefur merkilega mikla lengd. Það er bæði afar ljúffengt og hefur óaðfinnanlegt jafnvægi og því ekki annað hægt en að dást að svona vel gerðu víni (sama hversu mikla fordóma maður hefur gagnvart stórfyrirtækjum). Þarna má svo finna sæta sítrónu, soðin epli, perujógúrt, hunang, rjómakennda tóna og á bakvið þetta eru kalkrík steinefni sem minna að einhverju leiti á eldspýtustokk. Ferlega gott og afar matarvænt. Sting upp á að þið hafið það með feitum fiskréttum, hörpudiskur er til að mynda frábær.

Verð kr. 3.895.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post