Vidal-Fleury GSM 2020

 

 

Víngarðurinn segir;

Það hefur verið frábært að fylgjast með hversu hraðar framfarir hafa orðið á vínunum hjá Vidal-Fleury undanfarin ár og núna er fyrirtækið að sigla hraðbyri upp að hlið Chapoutier og Guigal sem ein af skemmtilegustu og heilbrigðustu víngerðum Rónardalsins. Kannski ekki skrítið þar sem Vidal-Fleury er jú í eigu Guigal-fjölskyldunnar og þaðan er stutt að sækja sér kunnáttuna og fagmennskuna sem einkennir báðar víngerðirnar.

GSM er blanda sem varð að einhverskonar vörumerki í kringum aldamótin síðustu, og þá utan Evrópu, sérstaklega í Ástralíu, en þar var og er mikil hefð fyrir því að rækta hitasæknar Miðjarðarhafsþrúgur eins og Syrah (sem Ástralir kalla Shiraz), Grenache og Mourvédre (sem einnig heitir Monastrell á Spænsku). Fljótt á litið gæti maður reyndar haldið að þetta væri ævaforn þrúgublanda frá Suður-Frakklandi, en svo er ekki. Syrah var nánast eingöngu bundin við norðurhluta Rónardalsins þartil fyrir um 4 áratugum og Mourvédre var fjarriþví útbreidd í Frakklandi, helst að hún gæfi af sér vín í Provence (einsog td Bandol). Grenache var vissulega nokkuð ræktuð við Miðjarðarhafsströnd Frakklands og upp með syðri hluta Rónardalsins en þegar rýnt er í tölfræðina þá má sjá að margar hvítar þrúgur sem maður heyrir ekki einusinni minnst á núna, voru jafnvel töluvert útbreiddari fyrir 50 árum og rúmlega það. Það má því þakka Áströlum kærlega fyrir að smella þessari skemmtilegu blöndu á markaðinn og þótt það hafi tekið franska víngerðarmenn smá tíma að tileinka sér þessa markaðssetningu þá sér maður nú æ fleiri frönsk GSM-vín. Rétt einsog þetta sem er upprunnið í Languedoc.

Þetta vín er ógagnsætt og fjólurautt að lit með unga og ríflega meðalopna angan þar sem finna má plómur í Madeira (sumir kannast við þetta sælgæti frá Anton Berg), Mon Chéri-mola, fjólur, kirsuberjagospillu, hindberjahlaup, negul og kanil. Þetta er flottur, rauð-fjólublár og ferskur ilmur sem mér þykir afar heillandi. Það er svo nokkuð kröftugt með góða sýru, þétt og mjúk tannín og verulega góða byggingu, bæði upp og niður. Þarna eru kirsuber, hindber, plómur í Madeira, kirsuberjagospilla, lakkrískonfekt og austurlensk krydd. Virkilega safaríkt og skemmtilegt rauðvín, mjög upprunalegt og vandað. Hafið það með allskonar mat því það gengur með nánast öllu en er sennilega best með kraftmeiri hversdagsmat, grilli og pottréttum. Það munar nánast engu að þetta vín fái 91 punkt hjá mér sem jafngildir fjórum og hálfri stjörnu. Athugið það!

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post