Dr. Loosen Erdener Treppchen Riesling Kabinett 2020

 

 

Víngarðurinn segir;

Þeir sem hafa fylgst með skrifum Víngarðsins gegnum árin ætti ekki að koma á óvart aðdáun hans á vínunum sem Ernst Loosen gerir, hvort sem það eru hin aðgengilegu vín í Pfalz undir nafninu Villa Wolf, þau sem gerð eru í Oregon í samstarfi við J. Christopher nú eða þau sem koma frá hinum upprunalegu vínekrum fjölskyldunnar í Moseldalnum. Þau vín koma frá þorpum einsog Bernkastel, Wehlen, Graach, Ürzig og Erden þaðan sem þetta vín kemur frá skikanum Treppchen (Litlu Tröppurnar).

Aðdáun Víngarðsins á þrúgunni Riesling ætti heldur ekki að koma neinum á óvart en að hans mati er hún ein af þeim allrabestu (og hugsanlega sú besta) sem víngerðarmenn geta unnið með. Árgangurinn 2018 af akkúrat þessu víni kemst amk hátt á lista Víngarðsins yfir ein bestu hvítvín sem viðskiptavinum einokunnarverslunar Íslands hefur staðið til boða undanfarin ár. Árgangurinn 2019 var framúrskarandi en þó alveg ekki jafn ógleymanlegur og 2018 og þessi nýji árgangur sem nú er til umfjöllunar er ekki ósvipaður og ómissandi fyrir alla þá sem deila aðdáun Víngarðsins á þessari þrúgu og þessum framleiðanda.

Það er ljós-sinugult að sjá með örltlum og fíngerðum loftbólum (sem er mjög algengt í hefðbundnum Kabinett-vínum). Það er meðalopið í nefinum með dæmigerðan ilm af eplum, bæði ferskum grænum eplum og eins soðnum eplum, sítrónukremi, hunangi, vínberjum, læm, ananas og gúmmísælgæti. Þetta er afar fersk og nýleg angan og hinir olíukenndu steinefnatónar sem oft einkenna Riesling-vín eru ekki farnir að láta á sér kræla, en þeir munu án efa fara að brjóstast fram undir lok þessa árs. Það er svo meðalbragðmikið, hálfþurrt og langt með afar fínlegt og glæsilegt bragð. Hefðbundin Kabinett-vín eru lág í áfengi en innihalda á móti töluverða sýru sem heldur hinum ógerjaða sykri í frábæru jafnvægi. Þarna má greina græn epli, steinaávexti, læm, greipaldin, vínber, hunang og ananas. Þessi árgangur er örlítið minna jarðbundinn en síðustu þrír árgangar en á móti er hann afar ávaxtaríkur og eins og þeir allir, verulega gómsætur. Þetta eru frábær vín ein og sér, enda létt og sýrurík en þau eru ekki síðri með mat. Prófið það til dæmis með bökum, salötum, sushi og bleikum fiski eins og td silung.

Verð kr. 2.899.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post