François D’Allaines Pouilly-Fuissé 2019

 

 

Víngarðurinn segir;

Það er alveg við hæfi að dæma þessi tvö vín frá D’Allaines í sama skiptið og rétt einsog með hinn rauða Bourgogne Pinot Noir þá var árgangurinn 2018 einnig hér í Víngarðinum fyrir ári síðan. Að mínu mati er þessi nýji árgangur af Pouilly-Fuissé engu síðri en 2018 og í hópi þeirra bestu hvítvína sem okkur standa nú til boða í einokunnarverslun rískisins.

Pouilly-Fuissé er lítið, skilgreint víngerðarsvæði, sunnarlega í Búrgúnd og í heild sinni eru þessi blettir oft kenndir við bæinn Macôn sem er þar í grenndinni. Rétt sunnan við Pouilly er svo Beaujolais þannig að lesendur átti sig á hversu sunnarlega Pouilly-Fuissé er. Þarna er landslagið heldur stórskornara en í kringum Beaune eða Nuits St Georges og þar sem þetta er um 80 km sunnar þá er hitastigið heldur hærra og einstök dalverpi njóta góðs af því, en Pouilly-Fuissé er einmitt bara dalverpi eða skál í litlu fjalllendi sem hefur rétta jarðveginn og afar heppilegar aðstæður til að gera góð hvítvín.

Þetta vín hefur svo gylltan lit og ríflega meðalopna angan sem er bæði mjúk og búttuð en eikin er nokkuð framarlega einsog títt er um þessi vín. Þarna má finna bökuð epli, smjördeig, peru, steinaávexti, niðursoðinn ávaxtakokteil, ananas, sítrónubúðing og passjón. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með afar flotta sýru, frábært jafnvægi og í heild sinni er það bæði langt og glæsilegt. Þarna er sæt sítróna meira áberandi ásamt greipaldin, bökuðum eplum, ananas. smjördeigi, niðursoðnum steinaávöxtum og auðvitað kremaðri eik. Verulega ljúffengt og magnað hvítvín sem fer frábærlega með allskyns feitum fiski. Frábært með hörpuskel.

Verð kr. 4.895.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post