François D’Allaines Bourgogne Pinot Noir

 

 

Víngarðurinn segir;

Nú er að verða eitt ár síðan ég fjallaði um síðasta árganginn af Bourgogne Pinot Noir frá D’Allaines, en 2018 var að mínu mati besti árgangur sem hann hefur tappað á flöskur af þessu víni og verður hugsanlega ekki toppaður í bráð. Amk er 2019 ekki alveg jafn ljúffengur og margslunginn þótt hann sé að flestu leiti frábært vín og upprunalegt.

François D’Allaines er, einsog oft hefur komið fram, lítill framleiðandi og það eru ekki margar spánýjar eikartunnur í kjallaranum hans. Hann kaupir þrúgur af traustum ræktendum, vítt og breitt innan Bourgogne og hans megin-styrkur er nákvæm víngerð og persónuleg sýn á þetta fjölbreytta svæði. Þar er hann auðvitað í flokki með fjölmörgum öðrum framleiðendum sem eru í sömu aðstöðu, að eiga ekki vínekrur en gera vín úr aðkeyptu hráefni.

Þetta vín býr yfir nokkuð þéttum, fjólurauðum lit og hefur dæmigerða angan af jarðarberjum, hindberjum, kirsuberjahlaupi, kanil og steinefnum. Þetta er ungleg og sætkennd angan og gæti vel átt eftir að auka flækjustigið næstu misseri og þá jafnvel að bæta við sig einkunnagjöfinni. Það er svo meðalbragðmikið með frísklega og góða sýru, mjúk tannín og frábært jafnvægi. Þarna eru jarðarber, hindber, kirsuber, negull, kanill, sveppir, leirkenndir steinefnatónar og eikin er fínlega ofin inn í þennan ávöxt. Það er sannarlega möguleiki að þetta vín sé örlítið lengur að ná toppnum (en 2018 var einstaklega ljúffengt strax í upphafi) og þá borgar sig að eiga nokkur gler næstu 3 árin, en akkúrat á þessari stundu stendur það síðasta árgangi örlítið að baki. Samt verulega gott og upprunalegt Búrgúndarvín og fer vel með dekkra fuglakjöti og fínlegri villibráð.

Verð kr. 3.795.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post