Flor de Crasto 2019

 

 

Víngarðurinn segir;

Portúgal er land sem er stútfullt af frábærum vínum sem virðist illmögulegt að selja Íslendingum, kannski vegna þess að þau eru vel gerð, persónuleg, ósnobbuð og sérstaklega vel prísuð en mín reynsla af smekk landans, eftir að hafa fylgst með framboði og eftirspurn undanfarin 30 ár, er að þjóðin kýs, upptilhópa, (a): ódýrasta sæta sullið sem það finnur, (b): ópersónuleg, bragðlítil og sýrusnauð vín (c): ofprísuð og snobbuð vín.

Portúgal var dálitla stund að breytast úr tiltölulega vanþróðuð landbúnaðarsamfélagi í Vestur-Evrópskt lýðræðisríki en með stuðning Evrópusambandsins er það nú komið á mun betri stað (rétt einsog Ísland) með hjálp góðra manna. Ekki er það síst víngerðin sem hefur tekið stórkostlegum framförum og Portúgal er þjóð sem býr yfir fjölmörgum staðbundnum þrúgum sem hvergi eru annarsstaðar og þótt þeir hafi ekki alveg sloppið við hina alþjóðlegu víngerð þá er portúgölsk víngerð ennþá afar persónuleg og spennandi.

Þetta vín er upprunið í Douro-dalnum (sama dal og Duero, hinumegin landamæra Spánar) og blandað úr þrúgunum Tinta Roriz (sama og Tempranillo), og hinum portúgölsku Touriga Franca og Touriga National, en sú síðastnefnda er án vafa ein besta staðbundna þrúga landsins og þekktust fyrir að vera uppstaðan í Portvínum.

Það býr yfir dimm-fjólurauðum lit og hefur einnig unga og „fjólubláa“ angan þar sem greina má sultuð bláber, kirsuberjalíkjör, plómur, kanil, toffí, negul, dökkt súkkulaði og brenndan sykur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, ungt og ferskt með sprikklandi sýru og mjúkan og þéttan ávöxt. Þarna eru rauð og dökk sultuð ber, súkkulaði, austurlensk krydd, líkjörskenndir tónar og toffí. Þetta er mjúkt og stórt vín en hefur verulega ferskan og spennandi persónuleika sem fer vel með allskonar bragðmeiri kjötréttum, hægelduðum mat og grilli.

Verð kr. 2.499.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post