Emiliana Organic Brut
Víngarðurinn segir;
Það er bráðnauðsynlegt að geta gripið í frábær freyðivín árið um kring, og ekki síst á sumrin þegar hitastigið er um og yfir 20°C dag eftir dag (hérna norðanlands) eða þegar það er lágskýjað og í kringum 13°C (fyrir sunnan). Amk er alltaf tilefni til að geta skotið tappa úr freyðivínsflösku. Víngerðin Emiliana er orðin vel kunn hér á landi fyrir afar vel prísuð og ljúffeng vín frá Chile, og þá sérstaklega þau sem sett eru á markað undir nafninu Adobe. Undir nafninu Emiliana koma svo vín einsog Coyam (hefur alltaf fengið fullt hús hérna í Víngarðinum) og svo þetta, þurrt og lífrænt freyðivín sem upprunið er í Casablanca-dalnum, vestur af höfuðborginni Santiago.
Það er að mestum hluta til úr Chardonnay (um 80%) en afgangurinn er svo Pinot Noir. Það hefur ljósan, strágulan lit með grænni slikju og er til að byrja með rétt tæplega meðalopið í nefinu með angan sem minnir á hvít blóm, melónu, gul epli, stjörnuávöxt og sítrónu. Það freyðir vel, en fínlega, og er þurrt og meðalbragðmikið með góða lengd og í frábæru jafnvægi. Þarna má svo rekast á sítrónur, gult greipaldin, gul epli, vax, hunang og austurlenska ávexti. Virkilega frísklegt, þokkafullt og gleðiríkt freyðivín sem er frábært eitt og sér sem fordrykkur en það má einnig hafa það með allskonar léttum puttamat.
Verð kr. 2.599.- Frábær kaup