Willm Riesling Grand Cru Kichberg de Barr

 

 

Vínsíðurnar segja;

Við fjölluðum um hið frísklega og skemmtilega Willm Riesling Reserve 2019 fyrir nokkrum andardráttum sem allir ættu að næla sér í eintak af, þó það sé ekki nema til að kynnast vel gerðu Riesling víni. Hér erum við hins vegar með stóra bróður/systur þess, ef svo má segja, og kemur ávöxturinn í þetta vín frá Grand Cru Kirchberg vínekrunni sem liggur við bæinn Barr. Það má ekki rugla henni saman við Grand Cru Kirchberg ekrunni sem liggur við bæinn Ribeauvillé þar sem að það er allt önnur ekra en afhverju þeim datt ekki í hug að hafa mismunandi nöfn er eitthvað sem ég mundi gjarnan vilja fá útskýringu á. Grand Cru Kirchberg de Barr liggur norðan við bæinn Barr og snýr hæðin, sem er í um 250-300m hæð, í suð-austur sem skýlir henni frá norðanáttinni og er jarðvegurinn blanda af leir sem getur gefið vínunum þéttleika og kalkstein sem getur ljáð vínunum ferskleika.

Þetta ágæta vín er fölgyllt á litinn og aðeins tilbaka í nefi til að byrja með. Það opnast reyndar fljótt og í ljós kemur dæmigerður sítrusávöxtur í bland við hvít blóm, gul epli, ferska hunangstóna, steinefni og dass af steinolíu. Það er þurrt og ferskt í munni með frábært jafnvægi milli ávaxtar og sýru, ávöxturinn (sítróna, þroskuð gul og græn epli, pera og ferskja) er víbrandi og eftirbragðið nokkuð langt. Frábær heild, nokkuð margslungið og vel gert. Drekkið með ferskum skelfiskréttum eða jafnvel sushi.

Okkar álit: Virkilega vel gert, kominn smá þroski en ávöxturinn ennþá glæsilegur.

Verð: 3.999

Post Tags
Share Post