Finca La Chamiza Malbec 2018

 

 

Víngarðurinn segir;

„Á sínum tíma heimsótti ég La Chamiza-víngerðina í Tupungato-dalnum, sem liggur einhverja 100 kílómetra sunnan við héraðshöfuðborgina Mendoza. Það var um hávetur (hér á Íslandi altso, í Argentínu var auðvitað hásumar) og afar athyglisvert að líta þessa risastóru víngarða við rætur Andesfjallanna þar sem sólin bakar þrúgurnar í ríflega 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi heimsókn kom til vegna tengsla við víngerðina Cono Sur í Chile sem ég og aðrir í þessari ferð höfðum heimsótt stuttu áður og ennþá eru mikil tengsl á milli þessara tveggja víngerða. Það er augljóst að Polo-íþróttin er eigendum víngerðarinnar mjög hugleikin og bæði nöfn á vínum og merki víngerðarinnar bera þess merki. Það var reyndar gerð afar heiðarleg tilraun til að selja vín frá La Chamiza á sínum tíma hérna í hillum vínbúðanna án teljandi árangurs en ég er amk glaður að þessi vín skuli fást aftur, þau eru vel gerð og neytendavæn.

Þessi Malbec er lagaður úr þrúgum sem ræktaðar eru í Maipú og Tupungato og lítillega þroskaður i bandarískum eikartunnum. Hann hefur rétt tæplega meðaldjúpan, plómurauðan lit og meðalopna angan af rauðum sultuðum berjum, kirsuberjum, sultuðum krækiberjum, sveskju, Mon Chéri-molum og papriku. Þetta er ekki flókinn ilmur en býsna sætkenndur og dæmigerður fyrir þrúguna. Það er svo tæplega meðalbragðmikið, létt og mjúkt með góða sýru og góða endingu fyrir svona einfalt vín. Þarna eru dökku berin meira áberandi en í nefinu og keimur af krækiberjum, kirsuberjum, plómum, sveskjum, papriku og rykugum steinefnum. Þetta er matarvænt og nokkuð fínlegt Malbec-vín (miðað við hversu mörg Malbec-vín sem fást hér á landi eru í yfirþungaviktarflokknum) sem er gott með einfaldari hversdagsmat, pasta og pottréttum.Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup. “

Post Tags
Share Post