Dr. Loosen Erdener Treppchen Riesling Kabinett

 

Vínsíðurnar segja;

Treppchen vínekran sem er hinum meginn við Mosel ánna þegar þú stendur í bænum Erden er eiginlega eitthvað sem allir sem hafa áhuga á vín verða að sjá. Nafn ekrunnar þýðir einfaldlega tröppur í góðri Íslensku og dregur hún nafnið af þeirri staðreynd að erfitt er að komast upp í ekruna nema í þar til gerðum tröppum. Vínekran er ein af þeim bröttustu í eigu Ernie Loosen og þó svo að brattinn hafi sína kosti fyrir vínviðinn eru óskostirnir töluverðir þegar kemur að vinnslu ekrunnar og það liggur í augum uppi að nánast allt er unnið af manns hendi. Mæli með að skoða stutt vídjó með hinum skemmtilega Ernie Loosen um þessa tiltekna vínekru, sjá hér.

Þetta vín er fölgyllt á litinn og ofboðslega ilmríkt. Fallega þroskaður perur, melónur, sítrónur og apríkósur í fararbroddi með hvítum blómum og steinefni í bakgrunninum. Nammi. Í munni er það nokkuð þétt, hálfsætt en samt ótrúlega sýruríkt sem gefur þessu gott jafnvægi. Gómsætur ávöxturinn heldur sínu striki með dass af hunangi í lokin. Hef gert það nokkuð ljóst í gegnum mína dóma að sæta í vínum er ekki minn tebolli en hér er hún svo ótrúlega vel balanseruð af sýrunni að þetta svínvirkar. Yndislegt vín eitt og sér en mundi líka prófa þetta með sterkum mat, s.s. indverskum.

Okkar álit: Kabinett eins og það á að vera. Hálfsætt, sýruríkt og gómsætt.

Verð: 2.950 kr

Post Tags
Share Post