Louis Jadot Combe aux Jacques Beaujolais Village 2020

 

 

Víngarðurinn segir;

Lengi vel lét ég blekkjast af vínsnobburum sem ég taldi mér fróðari eða betri og var með vel hannaða fordóma gagnvart vínunum frá Beaujolais. Reyndar hafði reynsla mín á því tímabili nánast eingöngu verið bundin við fyrirbærið Beaujolais Nouveau sem, þrátt fyrir útbreiðslu í fjölmiðlum og vínbúðum, er eins fjarri Bordeaux (svo dæmi sé tekið) og Bordeaux Nouveau. Þegar ég seinna meir öðlaðist heldur dýpri þekkingu á þessu svæði og vínunum sem frá því koma, gerði ég mér (sem betur fer) grein fyrir hversu svakalega ég hafði haft rangt fyrir mér.

Í dag er ég ekki í vafa um að Beaujolais og þrúgan Gamay eru í hóp bestu víngerðasvæða þessa heims og þrúgan getur, við réttar aðstæður, verið einhver besta rauða þrúgan sem víngerðarmenn geta notað og er þar í hóp með Cabernet Sauvignon, Riesling, Chenin Blanc, Nebbiolo, Pinot Noir, Syrah og Tempranillo. En einhverja hluta vegna hefur gengið heldur verr að útbreiða fagnaðarerindið um Gamay og Beaujolais, sem kannski er bara alltílagi. Vínin þaðan eru, amk enn sem komið er, á hálfvirði eða jafnvel minna, miðað við Piemonte eða Bourgogne, en yfirhöfuð er verð á þeim komið langt framúr öllum velsæmismörkum. DNA-rannsóknir hafa reyndar leitt í ljós að Gamay er afkvæmi Pinot Noir og Gouais Blanc svo ekki á Gamay langt að sækja gæðin.

Beaujolais telst reyndar opinberlega til Búrgúndar, þótt menn noti í raun sjaldan þá skilgreiningu og lengi vel var litið á Beaujolais sem svæði sem hvorki var Búrgúnd eða Norður-Rón, en það liggur einmitt mitt á milli þessara tveggja umtöluðu víngerðarsvæða. Undanfarna tvo áratugi hafa víngerðir í Beaujolais gert sitt besta til að sannfæra okkur neytendur um gæði þessara vína og reynt að koma þeim á hið alþjóðlega vínkort. Það er smátt og smátt að skila árangri en því fer fjarri að úrvalið og sýnileikinn sé mikill, nema þá rétt innan héraðsins sjálfs. Sem er miður. Þetta eru einhver bestu kaup sem hægt er að gera.

Louis Jadot á heilmikið slot niður í Beaujolais sem nefnist Chateau des Jacques sem aðallega á víngarða í bestu þorpum Beaujolais; Moulin-á-Vent, Morgon og Fleurie og öll eru þau frábær, hvert á sinn hátt. Þetta vín er reyndar ekki frá einu skilgreindu svæði, heldur blanda af rauðu víni sem koma frá fleiru en einu svæði.

Það er ríflega meðaldjúpt að sjá, með rauðfjólubláan og ungan lit. Það er svo rétt rúmlega meðalopið í nefinu með angan sem minnir á hindber, eða jafnvel hindberjasultu, jarðarber, kirsuberjalíkjör, fíkjukex og steinefni. Það er svo meðalbragðmikið með afar hressilega sýru, mjúk tannín og virkilega góða lengd. Þarna má rekast á hindberjasultu, jarðarber, kirsuber í spritti, fíkjukex, steinefni og fylltan lakkrís. Ákaflega matarvænt og ljúffengt rauðvín sem er dálítið ungt um þessar mundir og mun án efa bæta við sig flækjustigi undir jól og þá jafnframt einum eða tveimur punktum. Hafið það með allskonar mat, svona sýrurík og vel ballanseruð vín ganga nánast með öllu.

Verð kr. 2.995.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post