Chapoutier Belleruche Côtes du Rhône 2020

 

 

Víngarðurinn segir;

Hver árgangurinn á fætur öðrum af vínunum frá Rónardalnum virðist ætla að toppa þann fyrri og nú höfum við sjálfsagt fengið fjóra í röð, þar sem hver virðst vera betri eða að minnsta kosti jafn góður þeim fyrri. 2021 verður hugsanlega ekki alveg jafn góður þegar hann mun koma á markaðinn, en hann lítur ekki alveg nógu vel út á pappírnum í augnablikinu. En sjáum hvað setur. Við skulum allavega njóta árgangsins 2020 sem er bara gegg.

Þetta á að heita einfalt vín. Gott og vel. Hið skilgreinda víngerðarsvæði Côtes du Rhône er vissulega víðfeðmt og framleiðendur setja það vín á markaðinn undir þeim formerkjum að það sé blandað frá ýmsum svæðum eða komi frá þeim hluta Rónardalsins sem ekki telst vera innan þrengri skilgreininga (einsog td Côtes du Rhône Villages eða þá þorpsvín, og dæmi um slík eru Cairanne og Rasteau). En framfarirnar sem orðnar eru á þessum vínum síðstu tvo áratugi og ekki síst hjá bestu framleiðendunum þýðir í raun að við erum að fá í hendurnar gæðavörur sem slaga uppí vín einsog Tavel eða Lirac, nú eða sjálft Chateauneuf-du-Pape var árið 1980 og þótt þetta sé nú næst-stærsta skilgreinda víngerðarsvæði Frakklands (42.000 hektarar) þá býður það uppá fjölbreytileika og sameinar alþýðleika og gæði.

Sem fyrr er þetta vín blandað úr Grenache og Syrah nánast til helminga. Það býr yfir ríflega meðaldjúpum, fjólurauðum lit og hefur unglega og býsna dæmigerða angan af sultuðum rauðum berjum einsog hindberjum, kirsuberjum og jarðarberjum en einnig fjólum, lakkrískonfekti, heitum austurlenskum kryddum, heybagga og þroskuðum banana. Það er svo kröftugt, þurrt og sýruríkt með frábæra byggingu og keim af sultuðum krækiberjum, hindberjum, kirsuberjum, lakkrís, plómum, pipar, brenndum sykri, sólberjalíkjör og reyk, Bæði stórt en jafnframt aðgengilegt og matarvænt. Algert alhliða matarvín sem fer vel með öllum bragðmeiri hversdagsmat og bragðmiklum kjötrréttum. 2020 er þurrara en 2019 og hugsanlega bara endingarbetra, svo það er fullt tilefni til að eiga nokkur gler í kjallaranum fram á næsta ár því það er ekki víst að við fáum sambærilegan árgang fyrr en 2022 kemur á markað.

Verð kr. 2.899.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post