Salvaje 2019

 

 

Vinotek segir;

„Salvaje er ágætis náttúruvín frá Emiliana í Chile sem um árabil hefur verið leiðandi í lífrænni ræktun. Þrúgurnar, sem eru hin rauða Syrah og 7% af hvítu Roussanne, eru ræktaðar í Casablanca-dalnum og víngerðin á sér stað með náttúrulegum gerlum og vínið er stabilíserað með náttúrulegum aðferðum en ekki súlfíti. Liturinn er djúpur og dimmblár, út í svarblátt og ilmur vínsins er þykkur og berjasultukenndur, bláber og krækiber, lyng, í munni er það mjúkt og ferskt, sætur, pipraður berjaávöxtur. 2.999 krónur. Frábær kaup.“

Víngarðurinn segir;

„Í fyrra kom 2018 árgangurinn af þessu sama víni inn á borð Víngarðsins og sá hlaut fullt hús. Þessi árgangur er ekki langt frá því að ná uppí sama flokk og skortir bara herslumunin. Engu að síður er þetta vín sem allt áhugafólk ætti að vera búið að smakka fyrir löngu enda eitt fárra súlfítlausra vína sem er drekkandi.

Það er sem fyrr blandað úr hinum frönsku Rónar-þrúgum Syrah og Rousanne en sú síðarnefnda er hvít og sá siður að blanda mjúkum, hvítum þrúgum út í þéttofnar og tannískar rauðar þrúgur er ekki nýr. Hann hefur verið stundaður öldum saman en þekktustu dæmin á síðari tímum eru frá Côte Rôtie og Hermitage. Það er svo víngerðin Emiliana í Chile sem lengi hefur verið í fararbroddi með lífræn vín á þeim slóðum sem gerir þetta sérstæða og skemmtilega vín sem telja má til náttúruvína þótt það sé mun betra en flest það sem verið er að snobba fyrir um þessar mundir.

Það er dimmfjólurautt að lit og algerlega ógagnsætt með villta og meðalopna angan af rjúpufóarni, bláberjasultu, lyngi, pipar, leirríkum steinefnum, krækiberjasaft og meðalakenndum tónum sem minna á hálstöflur, kamfóru eða mentól. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með töluverða sýru, mjúk tannín og langvarandi þétt bragð. Það er mjög þurrt og þarna má finna allskonar hluti, svosem krækiberjasaft, bláberjasultu, lyng, svart te, lakkrís, pipar, ítalska bittera og kryddjurtir. Verulega gott og mikið vín sem minnir á íslenskar lyngheiðar. Árgangurinn 2018 af Salvaje var besta vín sem ég hef nokkurntíman fengið með íslenskri rjúpu að öðrum ólöstuðum. Þetta vín er aðeins öðruvísi og dálítið þurrara en ég er viss um að það er fullkomið með bragðmikilli villibráð einsog villigæs og rjúpu. Verð kr. 2.999.- Frábær kaup .“

Post Tags
Share Post