Willm Gewurztraminer Reserve 2018

 

 

Víngarðurinn segir;

„Ég hef nokkrumsinnum bent á að þrúgan Gewurztraminer á sér býsna harða aðdáendur og þótt þeir séu ekki margir þá eru þeir trúir og tryggir sinni þrúgu. Væntanlega eru það einkenni þrúgunnar sem aðdáendur hennar geta ekki staðist og þá eru það sennilega þeir sömu eiginleikar, sem þeir sem ekki deila þessari aðdáun, gefa lítið fyrir. Hún er nefnilega öll dálítið mikil og sérstæð og annaðhvort elska menn Gewurztraminer eða þá að menn sneiða algerlega hjá henni.

Víngerðin Willm getur státað að einu besta víni úr Gewurztraminer sem finna má í Alsace. Það er Grand Cru-vínið Clos Gaensbroennel sem að mínu mati stendur algerlega undir þeirri frægð og þeim dómum sem það fær reglulega. Vissulega er Gewurztraminer Reserve-vínið ekki að spila í sömu deild og Clos Gaensbroennel en miðað við sambærileg vín í sama verðflokki þá er það með þeim bestu.

Það er gyllt að lit með nokkuð opna og býsna dæmigerða angan af lyche, peru, ananas, fresíum, kardimommum (og í þessu feita samhengi þá minnir sá ilmur á nýsteiktar kleinur) og niðursoðnum ávöxtum. Þetta er sætkennd, krydduð og búttuð angan sem er öll svolítið mikil en sannarlega upprunaleg. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, mjúkt, langt og rúnnað með keim af lyche, peru, ananas, sætri sítrónu, kardimommum og steinefnum. Það er blessunarlega með góða sýru svo þetta vín verður aldrei þreytulegt og það á í fullu tré við allskonar mat. Bragðmikla forrétti, asískan mat, unnar kjötvörur einsog kæfur og pylsur og klístraða osta. Verð kr. 2.699.- Frábær kaup.“

Post Tags
Share Post