Lúxus lasagna með parmesan bechamel sósu

Fyrir 4-5

 

Hráefni

Nautahakk, 500 g

Salsiccia pylsur, 300 g / Tariello. Fást frosnar í Hagkaup, Krónunni og Melabúðinni

Lasagna plötur, Eftir þörfum / Ég notaði plöturnar frá Filotea, Fást í Hagkaup

Laukur, 1 stk

Sellerí, 30 g / 1 stilkur

Hvítlauksrif, 3 stk

Tómatpúrra, 2 msk

Hvítvín, 150 ml

San Marzano tómatar, 2 dósir / Má nota venjulega líka

Nautakraftur, 1 teningur

Ítalskt krydd, 1,5 msk / Kryddhúsið

Nýmjólk, 600 ml

Hveiti, 4 msk

Smjör, 60 g

Múskat, 2 ml

Parmesan eða Pecorino ostur, 50 g + meira til hliðar.

Pizzaostur, 100 g

 

Aðferð

  • Saxið lauk og sellerí mjög smátt. Takið utan af salsiccia pylsunum og stappið kjötið með gaffli.
  • Hitið olíu á pönnu eða í steypujárnspotti steikið nautakjöt og kjötið úr salsiccia pylsunum þar til það er nánast fulleldað. Þetta er best að gera í 2-3 skömmtm svo kjötið steikist sem best. Setjið á disk til hliðar og geymið.
  • Bætið við ögn af olíu í pottinn ef þarf og steikið lauk og sellerí þar til laukurinn er glær og farinn að mýkjast. Pressið 3 hvítlauksrif saman við og steikið áfram í smástund.
  • Bætið tómatpúrru út í pottinn og steikið í nokkrar mín. Bætið hvítvíni út í pottinn og látið sjóða niður í smástund. Bætið kjötinu út í pottinn ásamt nautatening, ítölsku kryddi og 1 tsk salti. Bætið tómötum út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni en kremjið tómatana með höndunum.
  • Lækkið hitann svo það rétt kraumi í pottinum og látið malla undi loki í um 1.5-2 klst. Smakkið til með salti. Látið malla án loks síðasta hálftíman eða þar til kjötsósan þykkist hæfilega.
  • Rífið parmesan eða Pecorino ost. Bræðið smjör í potti og pískið svo 4 msk af hveiti saman við. Eldið hveitibolluna í 2-3 mín en hrærið stanslaust í svo ekkert brenni við.
  • Bætið mjólk út í pottinn í nokkrum skömmtum en hrærið vel í á milli svo sósan sé kekkjalaus. Bætið múskat út í og látið sósuna hitna og þykkna þar til hún er álíka þykk og ab-mjólk. Hrærið rifnum Parmesan eða Pecorino osti saman við og smakkið til með salti og pipar.
  • Sjóðið lasagna plötur eftir leiðbeiningu á umbúðum ef þarf. Ég notaði 4 stórar lasagna plötur frá Filotea þar sem þær passa fullkomlega í formið mitt en notið ykkar uppáhalds plötur í því magni sem hentar ykkar formi. Athugið að eldunartíminn er lengri ef notaðar eru plötur sem þarf ekki að sjóða.
  • Forhitið ofn í 180°C
  • Dreifið smá sósu í botnin á eldföstu móti og setjið lasagna plötu/r yfir. Dreifið 1/3 af kjötsósunni yfir og því næst 1/4 af parmesan bechamel sósunni og setjið svo lasagna plötu yfir. Endurtakið 2 sinnum svo þið séuð með 3 lög af kjöti og 4 lög af lasagna plötum. Dreifið restinni af parmesan bechamel sósunni yfir síðustu lasagna plötuna og dreifið pizza osti yfir.
  • Hyljið mótið með álpappír og bakið í 20 mín. Fjarlægið álpappírinn og bakið í 10-15 mín til viðbótar eða þar til osturinn er bráðnaður og efsta lagið er orðið fallega gyllt og girnilegt. Athugið að ef notaðar eru lasagna plötur sem þarf ekki að sjóða er eldunartíminn 50-60 mín undir álpappír og svo 10-15 mín án.
  • Látið lasagna standa í 20 mín undir álpappír áður en maturinn er borinn fram, en þá helst það mun betur saman á disknum.

 

Vínó mælir með: Cune Gran Reserva með þessum rétt.

Uppskrift: Matur & Myndir