Pizzur og vín eru samsetning fín

Það er kúnstugt bæði og gaman að para sælkeramat og vín saman, og það getur orðið sérstaklega áhugavert með mat sem felur í sér fléttu mismunandi bragðtóna. Þar pizzunni sannarlega rétt lýst. Pizzan er til í óteljandi útfærslum og samsetningum þar sem við sögu koma álegg úr öllum mögulegum bragðflokkum – stundum saman í torkennilegri bragðtónasinfóníu sem gengur upp. Hvernig má það svo vera? Nú, af því þér finnst hún ganga upp. Þannig er það bara.

 

Það sem þér finnst gott saman

Sama er að segja um pörunina á eftirlætis pizzunni þinni við gott vín. Ef þér finnst þessi pizzan og hitt vínið passa saman þá er það ekki flóknara en svo. En svo geta líka nýir heimar töfrandi samsetninga opnast upp fyrir manni þegar ákveðnar samsetningar eru prófaðar. Eins og hvítvín með tilteknum pizzum. Nokkuð sem þú sást ekki fyrir, eða hvað? Hvítvín virkar nefnilega framúrskarandi vel með réttu pizzunum, á meðan rautt er ómissandi með öðrum. Og stundum er meira að segja rósavín lykillinn að fullkomnu pizzakvöldi.

 

Fitan kallar á sýrni…

Tvennt eiga langflestar pizzur sameiginlegt, og það er sósan sem unnin er úr tómötum og svo osturinn sem dreift er yfir pizzuna. Þess vegna er rétt að meta þessi tvö atriði sérstaklega. Hvað ostinn varðar þá er aðalatriðið að hann er fituríkur og það þýðir að við þurfum svolitla sýrni til að kljúfa fituna – við mælum með að hafa hana í hærri kantinum, þó það sé oft smekksatriði hvar á bilinu “miðlungshá til há” sýrnin á að vera.

 

… en stillum tanníninu í hóf

Sama er að segja um tómatsósuna; þar sem tómatar eru sjálfir nokkuð sýruríkir þarf vínið að vera í sýrumeiri kantinum sömuleiðis. Varist að hafa mjög tannínrík vín með pizzum sem hafa tómat-grunnaða sósu; þegar tannín mætir bragðinu af tómat getur bragðið orðið töluverð rammt, jafnvel málmkennt.

 

Grundvallarparanir sem gefa tóninn

Eins og gefur að skilja er of langt mál að setja hér fram tillögur að öllum mögulegum pörunum á pizzum og víni – ef þú ert í hópi þeirra sem fá sér BBQ-sósu, bananasneiðar og harðfisk á pizzuna þína er rétt að óska þér allra heilla við leit að rétta víninu. Hér á eftir fara hins vegar fáeinar tillögur að algengum pizzum og víni sem við ábyrgjumst að passi vel með. Hvað flóknari pizzur varðar þá er rétt að lesa sér vel til í neðangreindu og vinna sig útfrá því að þínu uppáhaldi. Vindum okkur án frekari orðalenginga í pizzurnar og vínin!

 

Pizza Margaríta + Rósavín

Þetta er í huga margra sú einfaldasta af pizzum en einmitt þess vegna skína bragðtónarnir nánast óhindrað í gegn á bragðlaukunum; tómatsósan, mozzarella-osturinn og fínsaxaða ferska basilikan sem er sáldrað yfir. Til að mæta þessari samsetningu mælum við með svölu rósavíni; það ræður vel við hið beinskeytta bragð Margarítunnar enda fer í rósavíninu saman frískleiki hvítvíns og létt fylling rauðvíns. Vino mælir með: Adobe Reserva Rose

 

Pepperoni Pizza + Chianti

Pepperoni er, eins og öllum er sjálfsagt kunnugt, verulega bragðmikil og sterk pylsa, og þar sem hún er ákaflega fiturík dreifist bragðið af henni bókstaflega út um alla pizzuna við bökunina. Það blasir því við að hér er þörf á nokkuð öflugu víni til að ráða við pizzuna og við mælum með áströlskum Shiraz eða góðum Chianti frá heimalandi pizzunnar.

Vino mælir með: Melini Chinati Governo

 

Hvít pizza + Pinot Grigio

Hvít er kölluð sú pizza sem ekki er með tómatsósugrunn undir álegginu og ostinum. Hér á landi heitir almenna útgáfan af þessari ljúffengu pizzu einfaldlega hvítlauksbrauð, en hún er yfirleitt óþarflega sölt og með ofskammti af hvítlauk. Þegar rétt er að farið er deigið einfaldlega léttpenslað með hvítlauksolíu, 6-7 sneiðum af mozzarella og 2 msk af góðum parmesan dreift yfir og loks ½ tsk af fersku óreganó sáldrað yfir, ásamt salti og nýmöluðum svörtum pipar. Með þessari pizzu mælum við með hvítvíni, fersku og frískandi, og þá ekki síst óeikað Chardonnay eða Pinot Grigio.

Vino mælir með: Lamberti Pinot Grigio, (víndómur hér)

 

Pizza Hawaii + Riesling

Nú erum við með alvöru verkefni – pizza með skinku og ananas! Hér er vænlegast að leita í hvítvín og einkum í mátulega sætt Riesling. Sýrnin í Riesling-þrúgunni klýfur fituna í svínakjötinu og skefur hana af bragðlaukunum, og sætan passar frábærlega með yfirgnæfandi sætukeimnum af ananasnum. Sérdeilis skothelt kombó.

Vino mælir með: Schmetterling Riesling

 

Ostapizza + Pinot Noir

Fyrir unnendur góðra osta – þeirra sem fá sér til að mynda Pizza Quattro Formagione – er gaman að segja frá því að þeir geta látið hér eftir sér þétt og mikið rauðvín, rétt eins og ef þeir væru að njóta ostanna einna og sér. Með þessari ostaveislu mælum við með Zinfandel eða Pinot Noir. Þetta er all-in.

Vino mælir með: Abobe Reserva Pinot Noir

 

Grænmetispizza + Sauvignon Blanc

Ef þú ert í grænu deildinni þegar kemur að pizzum, hvort sem þú kýst grænmetisálegg eða einfaldlega þunnbotna pizzu með salati á borð við rucola eða spínat, þá er afar sterkur leikur að leita í frísklegt hvítvín með “grænum” bragðnótum, sýrni og örlitlum sítrus. Sauvignon Blanc er einna öruggasta valið með “grænni pizzu”.

Vino mælir með: Vicar‘s Choice Sauvignon Blanc (víndómur hér)

 

 

 

Share Post