Piparsteik með silkimjúkri koníakssósu

 

Hráefni

Nautalund, 2x 200 g

Rjómi, 150 ml 

Koníak, 40 ml 

Sýrður rjómi 10%, 1 msk

Dijon sinnep, 1 tsk

Skarlottlaukur, 1 stk

Kjúklingakraftur duft, 0,5 tsk

Kjötkraftur duft, 0,5 tsk

Sósulitur, 0,5 tsk

Sósujafnari, eftir smekk

 

Aðferð

Takið kjötið út a.m.k. 1 klst áður en elda á matinn.

Forhitið ofn í 200°C með yfir og undirhita

Þerrið kjötið með eldhúspappír. Nuddið með olíu og saltið og piprið kjötið rausnarlega.

Hitið pönnu við háan hita (helst stálpönnu). Bætið 1 msk af hitaþolinni olíu út á pönnuna þegar það er aðeins farið að rjúka úr henni og steikið kjötið í 2,5-3 mín á hvorri hlið. Bætið 15 g af smjöri út á pönnuna þegar um 1,5 mín eru eftir af steikingartíma kjötsins og dreypið bráðnu smjörinu yfir steikina á milli þess sem henni er snúið nokkrum sinnum.

Færið kjötið í eldfast mót og bakið í miðjum ofni 10-13 mín eða þar til kjarnhiti hefur náð 55°C fyrir medium rare eldun. Gott er að notast við kjöthitamæli til að fullvissa sig um að réttu kjarnhitastigi hafi verið náð.

Hellið mestu olíunni úr pönnunni og stillið á miðlungshita. Bætið söxuðum skalottlauk út á pönnuna og seikið laukinn þar til hann er farinn að mýkjast. Bætið koníaki út á pönnuna og hækkið hitann.

Látið vínið sjóða niður um a.m.k. helming og bætið þá rjóma, sýrðum rjóma, sinnepi, kjúklingakrafti, kjötkrafti og 75 ml af vatni út á pönnuna. Látið malla þar til sósan þykkist. Bætið að lokum smjörklípu út í sósuna ásamt sósulit ef vill og sósuþykki ef þarf. Smakkið til með salti.

Berið steikurnar fram með frönskum kartöflum og góðu salati.

Vinó mælir með: Lealtanza Crianza með þessum rétt.

Uppskrift: Matur og Myndir