Marineraðar kjúklingabringur með villisveppasósu og heimalöguðu hrásalati

Hráefni

Kjúklingabringur, 2 stk sirka 180-200 g hver

Bezt á kjúklinginn, 1,5-2 msk

Rjómi, 250 ml

Villisveppaostur, 50 g

Provance krydd, 0,5 tsk

Kjúklingakraftur, 1 tsk / Oscar

Sósulitur, 1 tsk / Má sleppa

Rauðkál, 150 g

Gulrót, 60 g

Japanskt majónes, 1 msk

Sýrður rjómi 10%, 1 msk

Eplaedik, 1 tsk

Steinselja, 8 g

Kasjúhnetur, 25 g

Krullufranskar

Aðferð

Setjið kjúklingabringurnar á milli tveggja laga af bökunarpappír og berjið með potti eða lítilli pönnu þar til þær eru jafnar að þykkt. Setjið í skál með olíu og kryddblöndu. Blandið vel saman og látið marinerast a.m.k. í klukkutíma.

Setjið rjóma, provance krydd og kjúklingakraft í lítinn pott og stillið á miðlungshita. Rífið villisveppaost út í með fínu rifjárni og látið bráðna saman við í rólegheitum. Hrærið í við og við og látið malla þar til sósan er hæfileg að þykkt. Smakkið til með salti og notið sósulit ef vill.

Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita. Steikið bringurnar í 2-2,5 mín á hvorri hlið. Fylgist með hitanum svo kryddblandan brenni ekki við. Færið bringurnar í eldfast mót og hellið olíunni úr pönnunni yfir þær. Bakið í miðjum ofni í 15 mín eða þar til kjúklingurinn er hvítur í gegn og fulleldaður.

Sneiðið rauðkál mjög þunnt, helst með mandolíni (farið varlega!). Skrælið og rífið gulrót með rifjárni. Hrærið saman majónes, sýrðan rjóma og eplaedik. Blandið dressingunni saman við rauðkálið og gulrótina. Saxið steinselju og blandið saman við salatið ásamt kasjúhnetum. Smakkið til með salti.

Berið fram með t.d. krullufrönskum.

Vínó mælir með: Dr Loosen Erdener Treppchen Riesling Kabinett með þessum rétt. 

Uppskrift: Matur og Myndir