Hátíðarréttir

 

Það er svo gaman að gera sér dagamun yfir aðventuna og útbúa létt hlaðborð fyrir fólkið sitt og skapa saman notalega stund. Hér eru nokkrar góðar og einfaldar hugmyndir og uppskriftir fyrir ykkur.

Laufabrauð með smjöri og reyktum lax

 

Snitta með trönuberjasultu

Hráefni

1 x snittubrauð

2 x brie ostur

Trönuberjasulta (má kaupa tilbúna)

Rifsber til skrauts

 

Aðferð

Skerið brauðið í sneiðar og ristið í ofni við 200°C í um 3 mínútur.

Setjið þá væna sneið af brie osti ofan á og næst trönuberjasultu og rifsber til skrauts.

 

 

Bakaður ostur með kanil og appelsínukeim

 

Hráefni

1 x brie ostur

2 msk. púðursykur

3 msk. maple sýróp

½ tsk. kanill

70 g pekanhnetur

Rifinn appelsínubörkur

 

Aðferð

Bakið ostinn í eldföstu móti við 180°C í um 10-12 mínútur.

Hitið á meðan púðursykur, sýróp og kanil saman í potti og saxið niður pekanhneturnar.

Þegar sykurinn er uppleystur má setja hneturnar saman við og hella öllu saman yfir ostinn þegar hann kemur úr ofninum.

Stráið að lokum appelsínuberki yfir allt saman og njótið með góðu kexi/brauði.

 

 

Tartalettur

Hráefni

10 stk tartalettur

1 askja sveppaostur

300 g aspas í dós

300 g hamborgarhryggur (niðurskorinn)

Rifinn Cheddar ostur.

 

Aðferð

Hrærið saman sveppaosti, aspas og skinku.

Skiptið niður í tartalettuformin, stráið vel af osti yfir og bakið við 180° í 15-17 mínútur.

 

Ostabakki

Góð skinka og pylsur

Kex og baguette

Kastali og Grettir ostar

Niðurskorinn Havartí með trönuberjum

Orange Twist Toblerone

Súkkulaðihúðaðar kasjúhnetur

Mandarínur

Hindber og rifsber

 

Ristaðar fíkjusneiðar

 

Hráefni

Gott súrdeigsbrauð (10 sneiðar)

2 x Dala brie ostur

Klettasalat

10 sneiðar hráskinka

Ferskar fíkjur

Ólífuolía

Gróft salt

 

Aðferð

Sneiðið niður brauðið, penslið með ólífuolíu og stráið smá grófu salti yfir.

Skerið ostinn í sneiðar og geymið (það fara síðan um 3 ostsneiðar á hverja brauðsneið).

Ristið brauðsneiðarnar í 200°C heitum ofni í um 2-3 mínútur, takið út og setjið ostinn yfir, ristið áfram í um 1 mínútu eða þar til osturinn bráðnar aðeins niður og leyfið hitanum að rjúka vel úr sneiðinni.

Setjið eina hráskinkusneið yfir ostinn, næst smá klettasalat og að lokum niðurskornar fíkjusneiðar.

Vinó mælir með: Muga Reserva með þessum réttum.

Uppskrift: Gotteri.is