Viskí er í margra augum heimsins ágætasta áfengi og því vinsælt til gjafa þegar mikið liggur við, bæði um afmæli og jól, og algengt er þá að láta par af fallegum glösum fylgja með. Fyrir þá sem velta því fyrir sér hvaðan orðið „whisky“ er komið þá liggur uppruni þess í forn-gelísku; aqua vitae, eða lífsins vatn, er „uisge beatha“ á gelísku og fyrri hlutinn varð að “whiskey” sem á íslensku er vitaskuld “vískí“. Skoðum nokkrar tegundir viskís sem eru um margt ólíkar en eiga það sameiginlegt að teljast afbragðsviskí enda einmöltungar (e. single malt) frá Skotlandi, upprunalandi viskís.

 

The Macallan – eftirlætis viskíið

Skotland er sem fyrr segir upprunaland viskísins og skosku hálöndin eru þar eitt atkvæðamesta framleiðslusvæðið. Í kringum ánna Spey er án vafa sá landshluti sem er í mestum metum hjá viskíunnendum enda er þar að finna margar bestu viskígerðirnar. Þar á meðal er The Macallan, eitt af öndvegisviskíum veraldar en það hefur verið framleitt allt frá árinu 1824. Þegar viskíunnendur koma saman er ekki óalgengt að helmingur viðstaddra eigi The Macallan sem sitt eftirlæti og skyldi engan undra; í öllum sínum útfærslum, allt frá 10 ára grunngerðinni Fine Oak og að 25 ára dýrindinu og upp úr, eru viskíin óviðjafnanlega fáguð, þægileg og bragðgóð. Þetta er viskí úr efstu hillunni, ef svo má segja.

 

The Macallan Double Cask 12 ára

Lýsing: Gullið. Ósætt, malt, tunna, blómlegt, vanilla. Langt heitt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 13.499 kr.

 

The Macallan Rare Cask

Lýsing: Dökkrafgullinn. Ósætt. Apríkósa, vanilla, leður, hunang, tunna. Langt heitt eftirbragð.

Styrkleiki: 43%

Verð: 34.999 kr.

Highland Park – margslungna viskíið

Þetta margverðlaunaða viskíhús er staðsett á eynni Orkney, norður af Skotlandi, og eins og eyjaviskía er oftar en ekki háttur eru í því móreykjartónar. Þó er Highland Park víðsfjarri þungum reykjarmekki Laphroaig, og í því fléttast fíngerðar bragðnótur villihunangs og maltaðs korns saman við mildan móreykinn. Húsið hefur starfað allar götur síðan 1798 og hreppir reglulega verðlaun fyrir bragðgæði; 21 árs Highland Park hlaut meðal annars titilinn “World’s Best Single Malt” árið 2009. Stofnandi Highland Park hét því norræna nafni Magnus Eunson (ef til vill fæddur Jónsson?) og væri ráð fyrir sagn- og ættfræðinga að kanna hvort kappinn var ef til vill íslenskur að upplagi?

 

Highland Park Single Malt 12 ára

Lýsing: Rafgullið. Ósætt. Korn, þurrkaðir ávextir, heiðarjurtir, rjómakaramella. Hvasst langt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 10.499 kr.

 

Highland Park Single Malt 12 ára gjafaaskja með tveimur glösum 

Lýsing: Rafgullið. Ósætt. Korn, þurrkaðir ávextir, heiðarjurtir, rjómakaramella. Hvasst langt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 11.499 kr.

The Dalmore – ofurljúfa viskíið

Einkenni Dalmore-viskís er dádýrstarfurinn, en goðsögnin segir að slík skepna hafi ráðist að Alexander III Skotakonungi er hann var á veiðum ásamt föruneyti árið 1263. Enginn hreyfði legg né lið af ótta nema sá vaski aðalsmaður Colin af Kintail, sem rak spjót rakleiðis í enni tarfsins. Dalmore viskíið hefur þá sérstöðu að vera þroskað á tveimur mismunandi viðarámum, bandarískum notuðum bourbon-ámum og svo sherry-tunnum. Þetta ljær viskíinu sérstætt bragð, þar sem meðal annars er að finna möndlur, kaniltóna, engifer og sítrus, í bland við vanillu, hunang og suðrænar ávaxtanótur.

 

Dalmore 12 ára

Lýsing: Rafgullið. Ósætt, Korn, malt, hunang, þurrkaðir ávextir, leður. Hvasst eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 11.999 kr.

 

The Dalmore 15 ára

Lýsing: Ljósrafbrúnt. Ósætt. Púðursykur, tunna, leður. Heitt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 14.999 kr.

 

The Dalmore King Alexander III

Lýsing: Rafbrúnt. Ósætt, mjúkt. Þurrkaðir ávextir, hnetur, barkarkrydd. Margslungið.

Styrkleiki: 40%

Verð: 24.999 kr.

Laphroaig – grjótharða viskíið

Hér er komið annað “eyjaviskí”, þ.e. viskí frá Islay. Laphroaig [la-froyg] er rækilega móreykt og punktar sem rata á blað við smökkun á því eru oftar en ekki í líkingu við “joð, blautur, plástur, fjara, tjörukeimur, spítalalykt” og annað í þeim dúr. Stundum er haft á orði að eyjaskeggjar á Islay hleypi ókunnugum ekki svo glatt að sér en þeir sem verða vinir þeirra á annað borð verði vinir fyrir lífstíð. Því er ekki ósvipað farið um þetta viskí; það er klárlega bragð sem þarf að læra en komist maður upp á lag með það hefur orðið til vinátta fyrir lífstíð. Laphroaig er stundum kallað viskí fyrir lengra komna og þeir sem hafa víða komið við í heimi viskísins eiga oftar en ekki eina fagurgræna flösku í barskápnum.

 

Laphroaig 10 ára

Lýsing: Rafgullið. Ósætt. Þurrkaðir ávextir, mór, hampur, kanill, vanilla. Heitt langt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 10.699 kr.

 

Laphroaig 10 ára gjafaaskja með tveimur glösum

Lýsing: Rafgullið. Ósætt. Þurrkaðir ávextir, mór, hampur, kanill, vanilla. Heitt langt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 10.699 kr.

 

Hvernig er best að njóta viskís?

Smekkur manna er misjafn á það hvernig best er að njóta viskís og þar, sem annars staðar þegar lífsins lystisemdir eru annars staðar, gildir að „de gistubus non est disputandum“ – smekkur manna er óumdeilanlegur og í raun ekkert sem heitir rétt eða rangt. En ef Skoti væri hér spurður ráða varðandi hvað ætti að setja út í viskí er nokkuð öruggt að svarið yrði: „meira viskí”. Enda segir gamalt skoskt máltæki að tvennt kjósi Skotar helst nakið, og annað þeirra sé viskí.

Viskí í annarri og snarl í hinni

Öndvegisviskí eru nokkuð sem flestir kjósa að njóta eins og sér, en langi fólk að hafa einhvern matarbita á kantinum er það alls ekki úr vegi. Margir ostar fara glettilega vel með viskíi, allt frá brie til primadonna. Súkkulaði smellpassar með vönduðu viskíi, einkum dökkt gæðasúkkulaði með háu kakóbaunainnihaldi. Loks er ekki úr vegi að setja ávexti á disk til að hafa með, og þá ekki síst gul epli og perur. Súr epli og sítrusávexti skyldi aftur á móti varast því þeir yfirgnæfa bragðið af viskíinu.

Post Tags
Share Post