Vín með krydduðum mat

Rétt eins og það er hrein unun að hitta á góða pörun víns og matar, þá getur mikið kryddaður matur gert góðu víni óleik og hreinlega breytt því hvernig bragðlaukarnir skynja vínið. Sterk krydd draga úr sætunni og draga um leið fram tannínið í víninu svo það verður allt að því beiskt á bragðið, ekki ósvipað því þegar steinarnir úr vínberjum eru tuggðir. Það er nokkuð sem fæstum hugnast. En ef sterk krydd draga úr sætunni, hvað er þá til ráða? Jú, fyrst og fremst er að leita uppi vín vel búin sætu í munni, helst lítið eikuð og ef þau eru ávaxtarík þá spillir það ekki nema síður sé. Þessa eiginleika er mun líklegra að finna í hvítvíni en rauðvíni og þar af leiðandi eru þau hvítu jafnan betri kostur með krydduðum mat. Frönsk Pinot Gris hvítvín eru þessum kostum búin og eru með allra fjölhæfustu matvínum, einnig franskur Gerwürztraminer frá Alsace. Sauvignon Blanc vín frá Nýja Sjálandi eru einnig góður kostur í þessu sambandi. Mest er þó um vert að prófa sig áfram og þegar vín og bragð smellur saman er komin rétt sametning – því þegar allt kemur til alls hefur þú rétt fyrir þér.

 

Hvernig væri að prófa?

 

Willm Pinot Gris Reserve 2017 2.599 kr. 

 

Vinotek segir;

„Vínhúsið Willm er á vínleiðinni eða Route du vin á milli Strassborgar og Colmar í Alsace í Frakklandi, nánar tiltekið í smábænum Barr. Willm-fjölskyldan, sem þá rak veitingahús í Barr, stofnaði víngerðina 1896 og náði fljótt undraverðum árangri í útflutningi. 2017 var hið fínasta ár í vínrækt í Alsace. Eftir kaldan vetur brast á með hlýju vori og heitu, sólríku sumri og aðstæður út uppskerutímann voru hagfelldar. Þetta PInot Gris vín er auðvitað ennþá töluvert ungt, það er ekki liðið eitt og hálft ár frá því þrúgurnar voru tíndar. Ljóst á lit og þægileg, svolítið krydduð sítrusangan í nefi, sítrónubörkur, greip, sykurlegnar perur, hvít blóm. Ferskt og þægilegt í munni, örlítil sæta sem gefur ávextinum fyllingu, vínið er ekki alveg skrjáfþurrt, fín lengd. 2.599 krónur. Frábær kaup. Með austurlenskum réttum.“

 

Willm Gewurztraminer Reserve 2016 2.599 kr. 

Vinotek segir;

„Vínhúsið Willm er á vínleiðinni eða Route du vin á milli Strassborgar og Colmar í Alsace í Frakklandi, nánar tiltekið í smábænum Barr. Willm-fjölskyldan, sem þá rak veitingahús í Barr, stofnaði víngerðina 1896 og náði fljótt undraverðum árangri í útflutningi. Þetta Gewurztraminer vín hefur tæran, ljósgulan lit, þægilega angan af blómum, rósabúnt, sætum ferskjum og ástaraldinávexti, mjúkt og ferskt í munni, þægilega þurrt. 2.599 krónur. Frábær kaup. Með austurlenskum réttum, indverskum og taílenskum.“

 

Vicar‘s Choice Sauvignon Blanc 2.599 kr. 

Vinotek segir;

Sauvignon Blanc er sú þrúga sem Nýsjálendingar nota hvað mest og nýsjálenski stíllinn er einstakur. Þetta er ungt og þægilegt eintak af nýsjálenskum Sauvignon, sem sýnir mörg af hinum dæmigerðu einkennum þessara vína.Vínið er fölgult á lit, smá grænir tónar og nefið vínsins einkennist af ferskum og skörpum sítrusávexti, lime, limebörkur og greip, þroskuð melóna, ástaraldin, þægilega grösugt, ferskar kryddjurtir og svolítið míneralískt. Frábær kaup.“

 

Vicar‘s Choice pinot noir 2016 2.599 kr.  

„Nýsjálendingar hafa náð ansi hreint góðum tökum á Pinot Noir-þrúgunni og hún er fyrir löngu orðin ein helsta rauðvínsþrúga þeirra. Stíll nýsjálensku Pinot Noir-vínanna er þó nokkuð frábrugðin Búrgundarvínunum á heimaslóðum þrúgunnar, mýkri, ávöxturinn sætari og sultaðri. Ljósrautt með angan af sultuðum jarðarberjum, rifsberjum og hindberjum, mild og sæt örlítið ristaðri eikarangan, mjúkt og þykkt í munni, ferskt og milt.“

Post Tags
Share Post