Jura

Eyjan afskekkta, Jura liggur undan suðvesturströnd Skotlands, milli meginlandsins og Ílareyju.

Hún er ekki stór eyjan sú eða einungis um 366 ferkílómetrar. Þar búa nú rétt rúmlega 200 manns og er þar einn pöbb og einn aðalvegur.

Afskekkt er eyjan og kyrrlát, fögur og friðsæl, vel til þess fallin að njóta næðisins sem hana umlykur og þess má geta að George nokkur Orwell settist þar að um tíma til að leggja lokahönd á sína þekktustu bók, 1984.

Þar má einnig finna viskíverksmiðju sem ber nafn eyjunnar eða Isle of Jura Distillery Co. og er sú í eigu Whyte&Mackay og það er hún sem við ætlum að einbeita okkur að.

Jura viskíbólið opnaði árið 1810 og þar að baki stóð maður að nafni Archibald Campbell. Saga þess hefur verið þónokkuð stormasöm og þyrnum stráð en engin starfsemi var þar ca. fyrstu sextíu ár síðastliðinnar aldar.

Árið 1901 lokaði verksmiðjan og opnaði ekki aftur fyrr en 62 árum síðar. Við lokunina minnkaði mjög íbúafjöldi eyjunnar og einungis um 100 manns voru þar eftir er hún enduropnaði árið 1963. Segja má að ábúð eyjunnar standi og falli með Jura viskíbólinu en athyglisverð er sú staðreynd að um 80% eyjarskeggja starfa beint eða óbeint fyrir fyrirtækið.

Framleiðsla hófst, sem fyrr segir, á ný árið 1963 er Scottish&Newcastle brugghúsið keypti starfsemina og hefur hún staðið sleitulaust síðan og verið í eigu Whyte&Mackay frá árinu 1993.

Potteimarar Jura eru þeir næst hæstu í Skotlandi og gefa af sér fremur léttan viskívísi en þó er Jura afar fjölhæf verksmiðja og framleiðir nokkuð margar mismunandi gerðir maltviskís, allt frá laufléttu og ávaxtaríku upp í þyngra og sætara og þaðan í töluvert mikið reykt viskí.

Kjarnaframleiðslan er Jura 10 ára.

Skoðum ögn nánar hvernig það bragðast:

Liturinn er kopargylltur og aðlaðandi.

Anganin er sæt, örlítið krydduð, vanilla, piparkeimur, hunang og appelsínur. Jura 10 er þroskað að mestu í gömlum búrbontunnum og að hluta í Oloroso sérríámum sem gefa sætu. Með góðum vilja má greina snert af rúsínum.

Jura 10 er nokkuð áberandi sætt og það kemur fram keimur af vanillu, appelsínuberki, kanil, rúsínum, engifer, negul og mjólkurlöguðu kaffi með súkkulaðispæni. Skemmtilega slungið viskí án allrar tilgerðar og án þess að reyna um of á bragðlaukana. Mjög vel ballanserað og aðgengilegt viskí sem kveður munninn með súkkulaðikeim, hunangi, vanillu og agnarögn af mildu móreykjarbragði.

Við skulum skoða að lokum hvernig sé best að njóta Jura viskís.

Jura er milt og aðgengilegt, átappað 40% alkóhól og því hentar það afar vel til drykkju eitt og sér í góðu viskíglasi. Finnist neytendum það bíta ögn um of til að byrja með er gott að bæta nokkrum vatnsdropum út í til að milda það frekar.

Jura hentar einnig vel í hanastél: Hér er eitt ofureinfalt og bragðgott:

Jura Sunset:

Glas: Belgmikið glas/rauðvínsglas fyllt muldum klökum.

Innihald:

25ml. Jura 10.

25ml. Galliano L’Aperitivo.

(25ml. er ekki heilög tala en hlutföllin ættu að vera jöfn.)

Fyllið með góðu tónikvatni og setjið eina appelsínusneið út í.

Hrærið drykkinn í glasinu og njótið. Einfalt og gott hanastél sem hentar frábærlega sem fordrykkur.