Hátíðarvínin

Jæja, þá er alveg að bresta á jólahátíðinni í öllu sínu veldi. Ef að líkum lætur er undirbúningur á lokastigi og maturinn ákveðinn. Veislurétturinn á aðfangadag er oftast bundinn hefð á hverju heimili, enda er það stór hluti hinnar hátíðlegu stemningar. Öðru máli gegnir með vínið fyrir veisluna – hvað eigum við að bera fram með steikinni í ár? Það fer alveg eftir því hver steikin er. Stundum er valið borðleggjandi og blasir við, og stundum er hin mesta ráðgáta að velja vínið.

 

Hér eru nokkur góð vín sem við mælum með hátíðarmatnum;

Alphart Ried Tagelsteiner Chardonnay

Víngarðurinn segir;

Þið munið rétt að ég var með pistil um Neuburger-vínið frá Alphart hérna um daginn (Ried Hausberg 2018 ****) en þessi víngerð er líka að framleiða framúrskarandi vín úr frönskum/alþjóðlegum þrúgum og þessi Chardonnay er hreint afbragð og á svo sannarlega heima á jólaborðinu.

Austurríki er ár eftir ár eitt skemmtilegasta „vínland“ Evrópu en fellur oft í skuggan af þeim þremur stóru, Frakklandi, Ítalíu og Spáni enda er framleiðslan í Austurríki langt frá því að vera að svipuðu magni og gert er í þessum þremur löndum. En gæðalega séð eru afar góð vín frá Austurríki og þótt þeir sjálfir séu réttilega mjög stoltir af rauðvínunum sínum þá hef ég alltaf heillast meira af hinum einstöku hvítvínum sem þarna eru gerð. Loftslagið virðist amk henta afar vel til að gera einstök hvítvín.

Þessi Chardonnay er gylltur að lit og býr yfir meðalopnum ilm af soðnum eplum, perujógúrt, hunangi, fresíum, ananas, steinaávöxtum og léttum vanillutónum úr eikinni. Það er svo ríflega meðalbragðmikið með afar góða sýru, frábært jafnvægi og endist og endist. Það hefur þétta og búttaða áru, töluverða viðloðun með kremaða eikartóna og keim af bökuðum eplum, sætum sítrusávöxtum, austurlenskum ávaxtakokteil, apríkósumauki og steinefnum. Verulega gott, stórt og umfaðmandi Chardonnay sem fer vel með allskonar forréttum, feitum fiskréttum, kalkún og það þolir býsna bragðmikið meðlæti.

Verð kr. 3.999- Frábær kaup.

 

Chateau-Fuisse Pouilly-Fuisse Téte De Cuvée

Víngarðurinn segir;

Það er ekki úr vegi að halda áfram umfjöllun um jólavínin með því að benda á þetta frábæra hvítvín. Það kom einnig í jólapottinn hjá Víngarðinum í fyrra (árgangurinn 2017 ****1/2) og ef eitthvað er, þá er þessi nýji árgangur jafnvel sjónarmuninum betri og bara hársbreidd frá því að hljóta fullt hús.

Pouilly Fuissé er skilgreint víngerðarsvæði í suðurhluta Búrgúndar sem kallast Mâcon. Þarna eru gerð hvít og rauð vín úr sömu þrúgum og norðar í Gull-hlíðinni, Chardonnay og Pinot Noir. Munurinn felst í jarðveginum og loftslaginu, en þarna eitlítið sunnar í landinu er hitastigið alla jafna meira og því þroskast þrúgurnar á annan hátt og hvítvínin verða gjarnan þéttari, exótískari og bragðmeiri.

Það býr yfir ljós strá-gylltum lit og hefur rétt ríflega meðalopna angan þar sem glöggt má finna kremaða eikartóna, sæta sítrónuböku, perujógúrt, bökuð epli, steinefni, hunang og heslihnetur, enda er eikin dálítið ristuð. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, mjög glæsilegt í byggingu og endingu með afar góða sýru og lifandi ávöxt sem skilar sætum sítrusávöxtum, peru, hunangi, steinaávöxtum, eplaböku og búttuðum eikartónum. Það er í frábæru jafnvægi og svona vín getur hæglega þroskast næstu 3-5 árin í vínkjallaranum. Hafið það með allskonar feitara fiskmeti, humri og hörpudisk, ljósu fuglakjöti og öðrum bragðmeiri forr
Það er gyllt að lit með rétt ríflega meðalopinn og dæmigerðan ilm af hvítum Búrgúndara. Þarna er eplakompott, sæt sítrónubaka, suðrænir ávextir einsog ananas, hunang, agúrka og svo rjómakenndir eikartónar sem minna á Créme Brûlée. Það er svo þurrt og býsna bragðmikið í munni, með þéttvaxinn og búttaðan ávöxt, góða sýru og langvarandi, harmónískan bragðprófíl. Þarna er sítrónubúðingur, eplabaka, smjördeig, hunang, austrænir ávextir, niðursoðin pera og steinefni. Afar glæsilegt, hófstillt en kröftugt og flott Chardonnay-vín frá Búrgúnd sem munar aðeins einum punkti að fái fullt hús stiga. Hafið með humrinum og skelfisknum. Berið það fram 10°-12°C heitt.

Verð kr. 4.199.- Mjög góð kaup.

 

 

Domaine des Malandes Petit Chablis

Víngarðurinn segir;

Ég get staðfastlega vottað að Grand og Premier Cru-vínin frá Dom. des Malandes, Vau de Vey og Les Clos (þau fást hér) eru algerlega framúrskarandi, sem maður er svosem ekkert hissa á. En hvað þessi víngerð nær oft að gera afbragðsgóð Petit Chablis vín kemur manni eiginlega í opna skjöldu.

Maður er nebbnilega hissa þegar maður rekst á framleiðendur sem ekki ná að gera óviðjafnleg vín á fyrstaflokks ekrum í góðum árum (slíkt gerist), en aftur og aftur finnast mér „venjulegu“ vínin, Chablis og Petit Chablis frá Domaine de Malandes ekki síður vera ferlega vel gerð og þetta hér er gott dæmi um slíkt.

Það hefur strágylltan lit og rétt tæplega meðalopna angan af hvítum blómum, peru, soðnum eplum, melónu, sítrónubúðing, steinaávöxtum og kalkríkri jörð en allt þetta eru serk og upprunaleg einkenni á ungum Chablis. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með fínustu lengd og elegant ávöxt af ekki dýrara víni að vera. Þarna má greina sítrónur, steinaávexti, melónu, peru, soðin eða bökuð epli, steinefni og sítrónubúðing. Dæmigert, ljúffengt og viðmótsþýtt hvítvín sem er skothelt með fisk, skelfisk og meðalbragðmiklum forréttum. Frábær kaup.

 

Emiliana Coyam

Víngarðurinn segir;

Nú er kominn nýr árgangur af þessu frábæra, lífræna víni en þeir sem muna einhver ár aftur í tímann geta rifjað upp að hér hafa verið dæmdir árgangarnir 2012 (****1/2) og 2013 (*****) Og þetta vín heldur bara áfram að sækja í sig veðrið. Einsog venjulega er það flókin blanda af þrúgum, en uppistaðan í því eru þó Syrah og Carmenére en þarna eru líka Cabernet Sauvignon, Mourvédre, Petit Verdot, Malbec, Garnacha, Tempranillo og Carignan. Sannarlega ekki hefðbundin blanda.

Það kemur frá Colchagua í Chile og gert af víngerðinni Emiliana, en margir eiga að þekkja hin fínu Adobe-vín sem frá þessari víngerð kemur. Þetta rauðvín býr svo yfir dimm-fjólurauðum lit og hefur ríflega meðalopinn ilm þar sem blandast saman sæt hindber, plómur, sólberjalíkjör, jarðarber, krækiberjahlaup, lakkrís, karamella, píputóbak, dökkt súkkulaði og sprittlegnir ávextir. Þarna er einnig nýleg eik og með henni koma ristaðir tónar og vanilla. Það er svo vel bragðmikið í munni, þétt og sýruríkt en einnig fínpússað, mjúkt og langt og er merkilega glæsilegt þrátt fyrir alla stærðina. Það hefur flókinn en ferskan keim af sætum rauðum berjum, sultuðum dökkum berjum, krydduðum og ristuðum tónum ásamt súkkulaði og steinefnum. Þetta er vín fyrir þá sem vilja mikil vín frá Nýjaheiminum án þess að fórna glæsileikanum. Gengur vel með bragðmikilli íslenskri villlibráð, rjúpu og gæs en einnig með öllu hinum hátíðarkjötinu.

 

Emiliana Salvaje

Víngarðurinn segir;

Víngerðin Emiliana í Chile hefur um langt skeið einbeitt sér að framúrskarandi lífrænum vínum. Það eru vín einosg Adobe og svo eitt skemmtilegasta jólavínið sem fjallað var um í síðastu viku, Coyam. Fyrir stuttu kom svo enn eitt vínið frá þeim, Salvaje sem ekki er bara lífrænt heldur er það einnig súlfítlaust og því má segja að það sé náttúruvín (en súlfítleysi er helsta einkenni náttúruvína). Það er þó fjarri því að vera þetta brett-sýkta, geðvonda og oxaða ógeð sem reynt er stöðugt að byrla mér af vel meinandi og góðu fólki.

Uppistaðan í víninu er Syrah en einnig er blandað lítillega af hinni hvítu þrúgu Roussanna útí, en slíkt er iðulega gert í Côte Rôtie og Hermitage. Það býr yfir ógagnsæjum, rauðfjólubláum lit og er nokkuð opið í nefinu sem er afar skemmtilega flókið. Þarna eru vissulega berin áberandi einsog bláber og aðalbláber, en einnig eru þarna kirsuber, jarðarber, gerjuð krækiber, lyng, steinefni og svo eitthvað sem minnir afar mikið á hrátt rjúpufóarn. Það er svo verulega bragðmikið, þétt og þurrt með frísklega sýru og opnast hratt upp. Þarna eru dökku berin, bláber og aðalbláber áberandi en einnig gerjuð krækiber, lyng, steinefni og kryddbrauð. Verulega athyglisvert og skemmtilegt rauðvín og einfaldlega besta samsetning sem ég hef reynt með íslenskri rjúpu. Fyrst og fremst villibráðarvín en hún þarf að vera kröftug. Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.

 

Imperial Reserva

Víngarðurinn segir;

Flestir áhugamenn um betri Rioja-vín hafa einhverntíman smakkað á Imperial Reservunni frá Cune. Vín sem fyrst fékk verulega athygli þegar það var valið besta rauðvín heimsins af útbreiddu víntímariti hérna fyrir nokkrum árum. Síðan þá hefur það verið reglulega í íslenskum hillum og er alltaf jafn gott þótt örlítill árgangamunur sé auðvitað á því. Árgangarnir 2011 og 2012 fengu báðir fullt hús hjá mér og árgangurinn 2015 er nánast að fá sömu einkunn og munar bara hársbreidd frá því að hann fá fimm stjörnur.

Einsog áður er þetta vín að langstærstum hluta úr Tempranillo og það er þroskað á nýjum eikartunnum í að minnsta kosti eitt ár (einsog reglur kveða á um, en líklega er það þroskað lengur). Það hefur djúpan, kirsuberjarauðan lit og vel opinn og dæmigerðan ilm þar sem mjög margir hlutir koma við sögu. Þarna má til dæmis finna aðalbláber, bláber, krækiberjahlaup, kirsuber í sprittlegi, jarðarberjasultu, lakkrískonfekt, púðursykur, kremaða súkkulaðitóna og yfir og undir þessu öllu eru voldugir eikartónar sem skila vanillu, kókos, toffí og mokka. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með töluverð, mjúk tannín og mikla lengd. Það er ennþá nokkuð ungt og þarna má finna krækiber, brómber, kirsuber, aðalbláber, lakkrís, mjólkursúkkulaði, þurrkaðan appelsínubörk, kóla, kókos og muscovado-sykur. Ferlega gott og afar stórt rauðvín sem er best með hátíðarsteikum, lambi, nauti og besta grillmatnum.

 

Lealtanza Reserva

Víngarðurinn segir;

Víngerðin Bodegas Altanza á sér ekki langa sögu í Rioja en um þessar mundir er hún rétt rúmlega tuttugu ára gömul og rétt einsog flestar nýjar víngerðir á þessum slóðum þá eru vínin sem koma frá henni í dæmigerðum nútímastíl. Í Rioja þýðir það að vínin eru undantekningarlítið eingöngu úr Tempranillo, þrúgurnar eru tíndar við hámarksþroska og eftir gerjun eru vínin þroskuð í nýjum, frönskum eikartunnum. Allt þetta má glöggt finna í þessu frábæra víni sem óhætt er að mæla með. Það býr yfir djúprauðum lit og er komið með örlitla múrsteinstóna enda er þetta vín rúmlega sjö ára gamalt. Það er svo ríflega meðalopið í nefinu og þar má finna þéttan rauðan ávöxt og þá aðallega jarðarberjasultu, plómur, dökkt súkkulaði, vanillu, lakkrís, þurrkaðan appelsínubörk, brenndan sykur, Mon Chéri-mola og sveskjur. Þetta er fjölskrúðugur og síbreytilegur ilmur, dæmigerður fyrir nútímastílinn í Rioja og afar ljúffengur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, afar mjúkt og langvarandi með ferska og góða sýru þrátt fyrir þroskann og mikið af mjúkum tannínum. Þarna er jarðarberjasulta, fersk bláber, brenndur sykur, lakkrís, Mon Chéri-molar, vanilla og þurrkaðir ávextir. Þegar saman koma góður árgangur og vönduð víngerð er útkoman algerlega framúrskarandi. Hafið þetta vín með allskonar betri kjötréttum, íslenska lambið er auðvitað frábært með þessu víni en naut og svín koma fast á hæla þess.

 

Muga Reserva

Vinotek segir;

Muga hefur í gegnum árin verið eitt af allra bestu vínhúsum Rioja, að mörgu leyti skólabókardæmi um hvernig vín þessa héraðs eiga að vera. Stíllinn er klassískur Rioja-stíll, sem hefur engu að síður þróast með nútímalegri áherslum í héraðinu. 2012 er klassískur Muga, Dökkur kirsuberjaávöxtur í bland við sólber, kryddað, töluvert dökkristað kaffi, vanilla. Flott og vel strúktúrerað, kröftugt, öflug en mjúk tannín, langt. Kjötvín. 3.990 krónur. Frábær kaup.

 

Roquette & Cazes

Vinotek segir;

Roquette & Cazes er samstarfsverkefni tveggja magnaðra vínfjölskyldna sem í gegnum árin hafa byggt upp nána vináttu í gegnum ást á vínum og taka höndum saman við gerð þessa víns. Annars vegar Roquette-fjölskyldunnar sem á og rekur Quint do Crasto í Douro-dalnum í Portúgal og hins vegar Cazes-fjölskyldunnar sem á og rekur Chateu Lynch-Bages í Pauillac í Bordeaux. Vínið er gert úr þrúgum af ekrum Crasto í Douro og eru notaðar þrjár af helstu rauðvínsþrúgum Douro-dalsins, Touriga Nacional, Tinta Roriz (Tempranillo) og Touriga Franca. Þrúgurnar kunna að vera portúgalskar en stíllinn er meira í anda stóru Bordeaux-vínanna með öflugum tannískum strúktúr og áherslu á það sem Frakkar kalla „terroir“ karakteruppruna eða eðli vínekrunnar sjálfrar og allt það sem gerir hana að því sem hún er, jarðvegur, loftslag og lega. Vínið er dökkt, svarblátt og djúpt. Kröftugur svartur berjaávöxtur, sólber, þurrkuð kirsuber, ristaðar, dökkar kaffibaunir, apótekaralakkrís og vanilla, öflugt og ágengt í munni, sýrumikið, kröftug og mikil tannín, þurrt og míneralískt. Enn afskaplega ungt. Umhellið endilega, geymið gjarnan. 3.899 krónur. Frábær kaup. Magnað vín, njótið með t.d. villibráðinni, hreindýri og rjúpum.

 

Saint Clair Omaka Chardonnay Reserve

Víngarðurinn segir;

Eitt af þeim vínum sem komu mér einna mest á óvart undir lok síðasta árs var 2016 árgangurinn af þessu yndislega víni og nú er kominn nýr árgangur sem er engu síðri. Og jafnvel sjónarmuninum betri. Saint Clair-víngerðin á Nýja-Sjálandi er vel kunn hérna á landi og kannski er Vicar’s Choice Sauvignon Blanc-vínið frá þeim, það sem flestir þekkja. En Reserve-vínin sem þessi víngerð framleiðir undir eigin nafni eru bæði stærri og flóknari vín sem eru afar ljúffeng og vel prísuð í senn. Þessi Chardonnay er gylltur að lit og með nokkuð opna angan sem má útskýra sem hnausþykkan Chardonnay-ávöxt. Þarna er eplabaka, sítrónukrem, perujógúrt, ristaðar möndlur, hunang, þroskuð melóna, steinaávextir og heslihnetur. Ofaná öllu þessu eru svo ristaðir eikartónar sem gefa bæði vanillu og reyk. Það er svo bragðmikið með hörkuflotta sýru, þykkan ávöxt og endingu sem mæla má í mínútum. Þarna eru epli, sítrónubúðingur, perujógúrt, melóna, steinaávextir, smjördeig, hnetur og voldugir eikartónar sem styðja við allan þennan magnaða ávöxt. Þrátt fyrir stærðina er það fínlegt og matarvænt og vel hægt að jafna því við mun dýrari og eftirsóttari Chardonnay frá Búrgúnd. Hafið það með allskonar bragðmeiri forréttum, bragðmiklum fiski og ljósu fuglakjöti. Frábær kaup.

 

Willm Grand Cru Kirchber de Barr Pinot Gris

Víngarðurinn segir;

Einhverja 20 kílómetra fyrir suð-vestan borgina Strasbourg er þorpið Barr, norðarlega innan hins skilgreinda víngerðarsvæðis Alsace (þessi hluti kallast Bas-Rhin) og við það þorp er Grand Cru ekran Kirchberg (sem ekki má rugla saman við Kirchberg de Ribeauville sem er mun sunnar). Þarna er Willm með sínar höfuðstöðvar og gerir nokkur frábær vín, þar með talin einhvern besta Gewurztraminer sem frönsk víngerð framleiðir, Clos Gaensbronnel (sem er auðvitað Grand Cru). En þetta Pinot Gris er einnig allrar athygli vert.

Vínið er gyllt að lit og hefur meðalopna angan þar sem áberandi eru niðursoðnir ávextir, steinefni, apríkósur, perusafi, lyche, fylltur lakkrís og kókosbolla. Svona feitlagin þrúga einsog Pinot Gris er sjaldan feimin og til baka, en sjarminn í þessum vínum frá Alsace getur verið óviðjafnanlegur og sem matarvín eru vín úr henni einhver öruggustu kaup sem finna má.

Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið með búttaðan og sætkenndan ávöxt í bland við góða sýru, glæsilega byggingu og góða lengd. Þarna má svo greina soðin epli, niðursoðna ávexti, peru, perujógúrt, lyche, ananas, sætan sítrónubúðing og rautt greipaldin. Kryddað, stórt og mikið hvítvín sem má gjarnan umhella áður en þess er neytt og það þarf allsekki að vera helkalt úr ísskáp. Skothelt matarvín sem gengur með nánast hverju sem er, en er best með bökum, forréttum, feitari fiskréttum, krydduðum asískum mat og fuglakjöti.