Gammel Dansk

Gammel Dansk myndi sennilega teljast vera þjóðardrykkur Dana en framleiddar eru rúmar fjórar milljónir lítra af drykknum árlega og er hann mest selda sterka áfengi landsins á eftir Ákavíti og lang vinsælasti bitterinn.

Gammel Dansk er jú, svokallaður bitter. Bitterar eru sterkt áfengi (38% í tilfelli Gammel Dansk) sem inniheldur mikið magn hinna og þessara krydda og jurta. Þeir eru ýmist notaðir í hanastél eða drukknir einir og sér sem lystauki auk þess sem sagan segir að þeir bæti meltinguna, í hóflegu magni vissulega.

Heildaruppskriftin er hernaðarleyndarmál en vitað er að Gammel Dansk inniheldur hvorki fleiri né færri en 29 mismunandi hráefni; jurtir og krydd. Vitað er um nokkur þeirra og skoðum við þau ögn síðar.

Saga Gammel Dansk er ekki mjög löng miðað við sögu margra annarra áfengra drykkjarfanga. Hún nær eingöngu aftur til ársins 1964. Saga bittera er nokkuð á reiki en heimildir herma að víkingar hafi jafnvel tekið með sér einhverskonar útgáfu af bitterum með sér í langsiglingar.

Vinsældir bittera jukust mikið í kringum árið 1960. Danir vildu ekki láta sitt eftir liggja og forstjóri Danish Distillers fyrirtækisins vildi koma með bitter til höfuðs t.d. Underberg og Fernet Branca en vinsældir þeirra jukust geysilega um þetta leiti. Gammel Dansk kom frá Danish Distillers verksmiðjunni, sem fyrr segir árið 1964 eftir um þriggja ára leit að réttri blöndu jurta og krydda. Þá duttu þeir loks niður á þá uppskrift sem enn er stuðst við í dag.


Í Danmörku á þessum tíma, og jafnvel enn þann dag í dag þótti ekkert tiltökumál að fá sér skot af bitterum á morgnana en þeir þykja hafa hressandi og örvandi áhrif og vera góðir fyrir meltinguna eins og áður sagði. Og jú, henta vissulega vel til að koma manni í gang eftir veisluhöld kvöldsins áður. Eða eins og stendur á flöskunum: ,,Gerir þér gott að morgni, eftir erfiðan vinnudag, í veiðitúrum eða njótið sem lystaukandi fordrykkjar“.

Hefð er fyrir því í Danmörku að bjóða upp á Gammel Dansk skot við hin ýmsu tilefni; í afmælisveislum, brúðkaupum, á áramótum eða hreinlega hvenær sem ástæða þykir að skála.

Hér eftir fara nokkur þau hráefni sem notast er við í gerð Gammel Dansk. Vitað er að hráefnin eru 29 talsins en heildaruppskriftin er leyndarmál sem fyrr segir:

Lárviðarlauf. Olían úr lárviðarlaufum þykir hafa góð áhrif meltingu og matarlyst.

Engifer. Engifer hefur verið notað svo öldum skiptir gegn einkennum ógleði og magavandamála, þykir slá á sársauka og lækka hita.

Anís og múskat. Gegnum aldir alda hefur hvort tveggja þótt hafa kynörvandi áhrif auk þess sem hjátrú segir að múskat auki áhrif alkóhóls.

Reyniber. Þau þykja veita vörn gegn myndun nýrnasteina og hafa góð áhrif á gigt.

Kanill. Kanill þykir vinna gegn berkjubólgu, og á að hafa góð áhrif á bæði meltingu og sykursýki.

Það er kannski ekki vísindalega sannað hvort þessi áhrif komi virkilega fram og vissulega á ávallt að neyta alkóhóls í hófi, sama hvað það er, en staðreyndin er sú að þessi hráefni hafa gegnum aldirnar verið notuð gegn fyrrnefndum kvillum þar sem þau þykja hafa læknandi áhrif.

Gammel Dansk er vanalega neytt við stofuhita, eitt og sér eða með kaffi eða bjór, í litlum glösum, vanalega svokölluðum skotglösum. Þar sem það inniheldur eingöngu fersk, náttúruleg hráefni skal Gammel Dansk geymt við stofuhita, aldrei í kæli og ekki við sólarljós. Eftir flöskuopnun skal drykkjarins neytt innan sex mánaða

Þess má til gamans geta að lyfjaeftirlit Danmerkur setti eitt sinn auglýsingaherferð í gang þar sem var mælt gegn því að neyta Gammel Dansk í miklu magni gegn kvillum. ,,Ef þú færð kvef og færð þér Gammel Dansk í miklu magni, þá endist kvefið sennilega í sjö daga. Ef þú neytir þess ekki, þá endist það sennilega í viku”. Þeir láta ekki að sér hæða, vinir okkar Danir.

Það er þó alveg ljóst að Gammel Dansk í hóflegu magni bætir, hressir og kætir. Hefur góð áhrif á meltingu, gott til að orna sér við á köldum degi og hefur örvandi og góð áhrif, í hófi að sjálfsögðu.

Post Tags
Share Post