Freyðivín fyrir áramótaveisluna

Nú árið er senn liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, eins og segir í þekktu kvæði. Þá er við hæfi að líta til baka, gleðjast yfir því sem vel tókst til og læra af því sem miður fór. Og já – það tilheyrir líka að skjóta tveimur ólíkum hlutum upp í loftið; annars flugeldum og hins vegar töppum úr freyðivínsflöskum. Hvers vegna? Máske vegna þess að tappinn táknar gamla árið, fokinn út í veður og vind verður ekki troðið í tímans flösku aftur, um leið og vínið sem flæðir út stendur fyrir nýja árið sem ryðst fram með öllum sínum ófyrirsjáanleika og möguleikum.

Hér eru nokkrar góðar freyðivínstegundir sem Vinó mælir með fyrir áramótaveisluna;

Lamberti Prosecco

Klassískt Prosecco frá Ítalíu. Léttur og leikandi, þægilegt í munni og fersk sýra. Ljúffengt freyðivín sem hentar vel í veislur. Það er mjög gott sem fordrykkur og er frábært í hinn vinsæla Aperol Spriz. Tilvalið að para Lamberti Prosecco með smárréttum, sushi og heitum brauðréttum.

 

Mont Marcal Brut Reserva

Yndislegt Cava frá Katalóníu á Spáni. Þetta er virkilega gott og vel gert freyðivín á frábæru verði. Ljóst á lit, freyðir fallega. Þurr angan af kexköxum, þurrkuðum ávöxtum, eplum og sítrónu. Þurrt með ferskri sýru en mjúkri áferð, freyðibólurnar þéttar og þægilegar.

 

Emiliana Organic sparkling

Frábært lífrænt freyðivín frá Síle. Létt og þægileg freyðing, ósætt með ferska sýru. Þrúgurnar eru Chardonnay og Pinot Noir, þær sömu og notaðar eru í kampavín. Ávaxtaríkt freyðivín, en í bragði finnst vel ananas, gul epli og límóna. Góður fordrykkur einn og sér og með fingramatnum.

 

Willm Cremant d‘Alsace Brut

Fágað freyðivín frá Willm í Alsace í Frakklandi, framleitt með sömu aðferð og stuðst er við í Champagne. Þétt og þægilegt bólustreymi, þægileg uppbygging og gott jafnvægi út í gegn. Æðislegur fordrykkur og passar fullkomlega með smárréttum. Eitt besta freyðivín fyrir peninginn.

 

Nicolas Feuillatte Brut Reserve

Fínlegt og vandað kampavín á frábæru verði. Glæsileg uppbygging í munni, viðkvæmt, ferskt með góða endingu. Fæst líka í 200 ml flöskum sjá hér.

 

Nicolas Feuillatte Brut Rose 

Það er fátt meira smart en að bjóða uppá bleikt kampavín í veislum og er óhætt að mæla með Nicolas Feuillatte Brut Rose en það er einstaklega spennandi og gott freyðivín. Vínið er einstaklega fallegt á litinn, ljósberjarautt með rauðbrúnum blæ. Vínið er ósætt með brakandi ferska sýru. Það freyðir létt og á fíngerðan hátt. Þroskað vín með góða fyllingu. Í bragði má finna rifsber, hindber og jarðarber. Frábært kampavín eitt og sér sem fordrykkur og eða til að skála fyrir tímamótum. Vínið parast vel með ostum, reyktum laxi og einnig frábært með jarðarberjum og súkkulaði.

 

Pol Roger Reserve Brut

Pol Roger er eitt af stóru nöfnunum í kampavínsheiminum en engu að síður ekki stórt miðað við stóru kampavínshúsin, framleiðslan er „eingöngu“ um 1,5 milljónir flaskna á ári. Þetta er eitt af fáu stóru nöfnunum sem enn er fyrirtæki í fjölskyldueigu og er ekki síst þekkt fyrir sterka tengingu við Bretland í gegnum árin, ekki síst í gegnum þekkta aðdáendur þessa kampavíns á borð við Winston Churchill (sem eitt af árgangsvínum hússins er raunar nefnt eftir). Reserve Brut er blanda í nokkuð jöfnum hlutföllum af Pinot Noir, Pinot Meunier og Chardonnay. Fölgult og þétt freyðing, þurrkuð epli, nýbakað brioche-brauð og engifer. Það er ferskt, míneralískt og margslungið, frábært kampavín.

Post Tags
Share Post