Bodegas Altanza: stutt saga með stórum sigrum

Það þykir ávallt til tíðinda þegar vínframleiðandi hreppir Platínuverðlaun á verðlaunahátíðum Decanter-samtakanna, og ekki spillir gleðinni ef umræddur framleiðandi er sá eini frá sínu svæði í það skiptið. Slíkt gerðist einmitt á DAWA (Decanter Asia Wine Awards) verðlaununum á síðasta ári þegar rauðvínið Lealtanza Reserva 2012 frá Bodegas Altanza hreppti Platínuverðlaunin, með heila 97 af 100 í einkunn – eina vínið frá Rioja til að hljóta þann heiður á hátíðinni. Vínið er sannarlega vel að þessu komið enda er Lealtanza Reserva sérlega aðgengilegur Rioja, með tindrandi fallegan rúbínrauðan lit, í nefi má greina þurrkaða ávexti, kirsuber, mildan reyk eins og algengt er með þéttan Rioja sem fengið hefur að þroskast í góðan tíma á eik, og loks sætutón sem minnir á kókoshnetu. Margslungið bragðið felur svo í sér vel þroskaðan, næstum sultaðan, rauðan ávöxt, sætan kryddkeim og framhald af eikuðu reykjartónunum. Góð tannín og passleg sýrni tryggja að hér er um sérlega gott matvín að ræða sem smellpassar með hvers konar villibráð, fitusprengdu nautakjöti með ferskum kryddjurtum og matarmiklum lambakjötkássum. Loks er ljóst að sælkeraborgarar með flóknu áleggi munu blómstra í munni með þessu víni.

 

„Allt er tvítugum fært“

Það kann að koma einhverjum á óvart, einkum í ljósi hins magnaða árangurs að hreppa Platínuverðlaunin hjá DAWA, að Bodegas Altanza er ekki ævagömul víngerð með árhundruða sögu sem hefur verið stjórnað af sömu ættinni, kynslóð fram af kynslóð. Slíkt er ekki óalgengt hjá fremstu og bestu víngerðum víða um heim enda alltaf traustvekjandi að sjá að fjölskyldu standa vörð um hefðina. Þegar uppi er staðið eru það þó vitaskuld gæði vínsins sem skera úr um hvort víngerð er einhvers virði og þarna er rétt að staldra við og skoða Altanza aðeins nánar. Sem fyrr segir er hér ekki um gamalt fyrirtæki að ræða heldur hóf það starfsemi sína fyrir rétt rúmum tuttugu árum, árið 1998. Aðalstöðvarnar og víðfeðmar vínekrurnar er að finna við syðri bæjarmörk smábæjarins Fuenmayor sem liggur sunnan við mörkin þar sem Rioja mætir Baskalandi.

 

Skýr sýn frá fyrsta degi

Í upphafi var markmiðið hjá hinum nýju víngerðarmönnum í senn hófstillt en metnaðargjarnt. Verklýsingin kvað aðeins á um gerð rauðvíns úr Tempranillo-þrúgunni (semsé engar Garnacha, Mazuelo eða Graciano þrúgur, sem einnig er að finna í Rioja) og vínin skyldu vera í Reserva flokki en það merkir að vínir hefur fengið að þroskast í minnst 36 mánuði samtals á eik og á flösku, og þar af verður vínið að þroskast á eikarámunum í minnst 12 mánuði. Leiðarljósið var vönduð og aðgengileg vín á sanngjörnu verði. Hvergi hefur verið hvikað frá þessu stefnumiði og gott dæmi um það er vínið sem þessi umfjöllun hófst á; hið Platínuverðlaunaða Lealtanza Reserva. Þetta stórfenglega vín má finna í Vínbúðum hérlendis á viðráðanlegu verði sem kemur á óvart.

Aukin reynsla, fleiri vöruflokkar

Eins og gefur að skilja tekur sinn tíma að ná tökum á víngerð ef vel á að vera, en með því að takmarka lærdóminn sem felst í víngerð fyrstu árin með áðurnefndum hætti hefur starfsfólk Bodegas Altanza tekist að gera sig gildandi framleiðanda öndvegis Rioja vína á merkilega skömmum tíma. Hin seinni ár hefur framleiðslan verið víkkuð út í hvítvín þar sem Sauvignon Blanc og Viura þrúgurnar eru í aðalhlutverki, ásamt rósavíni, styrktum vínum á borð við sérrí og brandý, og loks er framleidd úrvals ólífuolía á landareigninni. Það er því óhætt að segja að framkvæmdastjórinn, David Sáez de Ojer, og hans fólk á vettvangi nýti landsins gæði með fjölbreyttum hætti. Eftir sem áður er kjarni starfseminnar – og um leið stærsti hluti framleiðslunnar – fantagóð rauðvín úr Tempranillo-þrúgunni eingöngu. Hjá Bodegas Altanza er sagan því skrifuð á hverjum degi og reglulega koma þar stórmerkir kaflar með sérstaklega eftirsóttum vínum sem vert er að kanna.