Small Beer Brew Co.: Enginn smá bjór!

Hækkandi sól og hlýnandi veður þýðir óhjákvæmilega að tilefni gefast í auknum mæli til að fá sér hressandi svaladrykk undir heiðum himni. Flest höfum við nokkuð skýra hugmynd um hvað við viljum hafa í hrímköldu glasi undir heiðum himni þegar tími er kominn til að svala þorstanum. Nú hefur hins vegar nýr valkostur bankað hressilega upp á, og það sem meira er, við erum að tala um að fá sér einn ískaldan sem fæst nú þegar í verslunum Hagkaupa og Melabúðinni. Hvernig má það vera? Jú, málið snýst um bjórinn frá Small Beer Brew Co. Hressandi og ljúffengan handverksbjór með lága áfengisprósentu en alvöru bragð.

Neyðin kennir þyrstri konu að brugga

Þó hugmyndin hjá Small Beer Brewing Co. að framleiða vandaðan og metnaðarfullan, óáfengan bjór (eða réttara sagt léttöl, því áfengisprósentan í bjórstílunum fjórum er á bilinu 1,0% til 2,2%) sé kannski nýstárleg, þá er hugmyndin í sjálfu sér sprottin úr ævagamalli hefð; heimabruggun bjórs með lágt áfengisinnihald til heimilisnota fyrir alla í fjölskyldunni. Hefðin er sótt í sögu Lundúna, sem er heimaborg áðurnefnds brugghúss. Hér þarf að fara aftur til 18. aldar en þá var framboð drykkjarvatns ekki beysið í höfuðborg Englands. Vatnið sem stóð fólki til boða gat verið svo hroðalega mengað að það gat bókstaflega verið baneitrað. Því gripu margir til þess ráðs að nota vatnið frekar til að brugga bjór til daglegrar neyslu því bruggferlið sótthreinsaði jú vatnið. Léttöl var þar af leiðandi ríkjandi hversdagsdrykkur á vinnustöðum, á heimilum og meira að segja í skólum, allt frá því um aldamótin 1700. En þegar leið fram á 19. öldina var almenningi tryggður aðgangur að ómenguðu drykkjarvatni og þá hvarf þörfin fyrir léttölið. Listin að brugga gott léttöl dó nánast út í kjölfarið og hvarf af sjónarsviðinu næstu 150 árin, svo að segja.

Dustum rykið af dásamlegri brugghefð!

Það er að segja, þangað til tveir vinir og samstarfsfélagar hjá Sipsmith Gin í London, þeir James Grundy og Felix James, uppgötvuðu að þeir deildu brennandi áhuga á þessum löngu gleymda kafla í bruggsögu Bretlands. Að loknum ótal prófunum og planleggingum slógu þeir til, stofnuðu Small Beer Brew Co. (small beer merkir í laun léttöl) og komu loks vörunni á markað. Til þess dugði þó ekki að taka hús á öðrum handverksbruggurum, þó þeir væru án vafa allir af vilja gerðir til að hjálpa, eins og allra betri bruggara er siður. Hér þurfti að skoða sæginn allan af eldgömlum bókum þar sem bruggferlinu á small beer var lýst. Hægt og bítandi náðu þeir tökum á hinni gleymdu list þar sem stóri galdurinn er opinberaður: áfengisinnihaldið er takmarkað, en bragðið ekki. Ljúffengur og frískandi bjór fyrir allar góðu stundirnar en hausinn er eftir sem áður á herðunum. Hljómar eins og frábær hugmynd, ekki síst fyrir þá sem vilja hafa bjórinn sinn vegan, en allur bjór frá Small Beer Brew Co. er vegan.

 

Bjór með bragð fyrir alla

Til eru fjórir mismunandi bjórstílar á markaðnum frá Small Beer Brew Co. Hver hefur sinn karakter og á meðan einn er framúrskarandi svaladrykkur er annar flóknari og margslungnari. Skoðum aðeins tegundirnar fjórar betur.

Lager 2.1%

Einstaklega frískandi lagerbjór þar sem humlar, malt og góð fylling koma saman í verulega bragðgóða heild. Hentar vel sem matbjór með indverskum og tælenskum mat, ítölskum smáréttum og síðast en ekki síst hefðbundnum tapasréttum frá Íberíuskaganum. Bestur ískaldur og dásamlegur sem svaladrykkur. Glútenfrír bjór/Vegan /74 hitaeiningar í 350 ml flösku.

 

Dark Lager 1.0%

Flókinn og spennandi bjór þar sem kaffi, dökkt súkkulaði og ristaður keimur eru í aðalhlutverki. Geggjaður með kássum og kjötbökum að breskum hætti, einnig ljúffengur með hörðum, vönduðum ostum og jafnvel villibráð. Þessi er ekki síst fyrir bjórspekúlanta að stúdera og kryfja. Vegan / 45 hitaeiningar í 350 ml flösku.

Steam 2.2% 

Hér er kornkeimurinn, sem svo margir bjórunnendur elska, í sviðsljósinu. Ríkulegt rúg- og hveitibragð, með dásamlegan sítrustón til að gera þetta áhugavert og svo ómissandi humlabeiskja í eftirbragðinu. Spennandi bragðsprengja sem gleður og fer vel með hægelduðum pottréttum, grilluðu kjöti eða álíka bragðmiklum mat. Vegan / 74 hitaeiningar í 350 ml flösku.

Session Pale 2.2%

Rétti bjórinn fyrir þá sem elska frískandi og bragðmikið pale ale með sprúðlandi sítrustónum og ávaxtaríkum humlum. Smellpassar í sumarið og bragðast fullkomlega með grilluðum hamborgurum, öllum mat sem státar af BBQ bragði, grillspjótum og snakkinu með leiknum. Vegan / 86 hitaeiningar í 350 ml flösku.

Við bendum áhugasömum á að kanna málið og kynna sér bjórinn í Melabúðinni og verslunum Hagkaupa. Bjórinn frá Small Beer Brew Co. er nefnilega enginn smá bjór!