Maker’s Mark

 

Maker’s Mark er hugarfóstur manns að nafni Bill Samuels Sr.en árið 1953 er hann sá fram á að setjast í helgan stein frá fyrirtækinu sem hann vann hjá, fannst honum hann vanta eitthvað við að vera seinnipart ævinnar.

Nokkrir fjölskyldumeðlimir og þ.á.m. hann sjálfur höfðu lengi dundað við örframleiðslu á búrbonviskíi og sá hann sér þar gott til glóðarinnar.

Búrbonviskí þeirra tíma voru yfirleitt frekar gróf og ruddaleg og ekki mikil natni lögð í verkið. Það þótti ódýr drykkur og meira til drukkinn til að fá fram áhrifin heldur en að njóta bragðsins.

Bill, sem var aldrei hrifinn af viskíinu sem Samuels fjölskyldan hafði framleitt fram til þess, varð sér úti um eina eintakið af uppskriftinni (þá var hún 170 ára gömul) sem hafði verið notast við, fór með það heim til sín og brenndi það. Sagan segir að einhverra hluta vegna hafi hann tekið þá ákvörðun að brenna uppskriftina heima hjá sér, innanhúss og hafi kveikt í leiðinni í gardínunum. Það var sennilega kominn tími á að skipta þeim út hvort eð er.

Eftir nokkra leit að húsnæði fyrir framleiðsluna hnaut kauði um byggingar gamallar viskíverksmiðju er hét Burks og var í bænum Loretto í Kentucky. Festi kaup á og framleiðsla hófst árið 1954. Þann stað valdi hann m.a. vegna þess að þar við hlið er stöðuvatn og mikið magn kalksteins í umhverfinu, sem síar út járn í vatninu, hreinsar það og gerir ríkt af kalsíum og magnesíum.

Markmið Bill Samuel’s var að búa til léttara, mildara og aðgengilegra búrbonvíski en tíðkaðist á þessum tíma. Flest innihéldu þau töluvert magn af rúgi, sem átti það til að gefa nokkuð gróft og groddalegt bragð. Í dag er enn notast við rúg í mörg búrbon en í minni mæli auk þess sem tækni hefur fleygt fram síðan. Hann var svo sem ekki mótfallinn því að nota rúg, en ástæðan fyrir því að Maker’s Mark er framleitt án hans er nokkuð skemmtileg og einkennist af hugmyndaauðgi Bills.

Í stað þess að eyða tíma og fjármagni í tilraunamennsku með framleiðslu viskísins og bíða eftir því hvernig það þróast í tunnunum án innkomu í millitíðinni, þá hóf okkar maður bakstur.

Hann einfaldlega tók sig til og fór að baka brauðhleifa með mismunandi hlutföllum af uppstöðuhráefnum viskís; maís, hveiti, rúgi og byggi. Það vildi þannig til að hann var ekki hrifinn af því brauði sem innihélt rúgmjöl og því var það slegið út af borðinu. Eftir stóð maís, hveiti og bygg. Hann raðaði því saman í næsta bakstur, líkaði vel og úr varð að Maker’s Mark er búið til úr 70% maískorni, 16% hveiti og 14% byggi. Hveitið gefur þennan milda og sæta blæ sem einkennir Maker’s Mark. Skemmtileg hugmynd ekki satt?

Bill stóð þó ekki einn að þessu. Eiginkona hans, Margie var honum innan handar. Hún föndraði miðana sem eru framan á flöskunni og hafa haldist óbreyttir allar götur síðan. Einnig var hún efnafræðikennari og safnaði auk þess gömlum koníaksflöskum, sem flestar höfðu innsigli úr vaxi.

Hún var hrifin af þeirri hugmynd, fannst það gefa Maker’s Mark sérstöðu á markaði og myndi draga að athygli kúnna. Bill var ekki sannfærður, fannst þetta óhagstætt, tímafrekt og kostnaðarsamt. Margie gerði nokkrar tilraunir með vax-innsiglið og tókst að sannfæra eiginmanninn. Enn þann dag í dag er hverri einustu flösku hand-dýft í þetta auðþekkjanlega, rauða vax. Þetta skapaði Maker’s Mark flöskunum sérstöðu á þeim tíma og var mikilvægt skref í að tryggja framtíð fyrirtækisins. Margie vissi hvað hún söng. Margie Samuel’s varð fyrsta konan til að vera tekin inn í frægðarhöll búrbonviskís, Bourbon Hall of Fame. Hún var þó ekki viðstödd, nema þá í anda (vínanda) því hún var tekinn inn í BhoF um tuttugu árum eftir andlát.

 

Til gamans má geta að Beam fjölskyldan bjó í næsta húsi og var þessum tveimur fjölskyldum vel til vina. T.d. er Bill Samuel’s Junior, sem tók síðar við af föður sínum, guðsonur Jim Beam sjálfs.

Til að ná fram stöðugleika er öllum tunnum í vöruhúsinu róterað reglulega því hitaastigið er mismunandi eftir því hve hátt þær liggja í rekkunum. Auk þess eru þær ávallt geymdar utandyra í níu mánuði fyrir áfyllingu, alltaf sem mest yfir sumartímann. Það fjarlægir náttúruleg tannín úr eikinni sem annars myndu fara í drykkinn og gera hann þurrari. Hver tunna er síðan ristuð að innan í 40 sekúndur. Það opnar um gropur í eikinni og gefur viskívísinum greiðari aðgang að vanillíninu sem leynist innra með henni.

Skoðum aðeins hvernig Maker’s Mark bragðast:

Angan: Hunangssæta, vanilla og ávöxtur.

Bragð: Mikil fylling, vanilla, karamella, eik, krydd, kanill. Þykk áferð.

Eftirbragð: Millilangt, silkimjúkt, vanilla, karamella.

Niðurstaða: Mjög mjúkt, aðgengilegt, þægilegt en samt mjög fjölþætt og bragðmikið. Fantagott eitt og sér en hentar mjög vel í hanastél.

Sem fyrr segir er Maker’s Mark pottþétt í hin og þessi hanastél sem innihalda búrbonviskí.

Eitt þeirra er hið fræga Mint Julep.

Lítum ögn á sögu þess.

Mint Julep hanastélið er opinber drykkur Kentucky Derby veðreiðanna og hefur verið síðan 1938.

Upphaflega var Mint Julep ætlað sem magalyf, lausn við alls kyns magakvillum en seint á 18. öld varð það vinsælt sem hanastél, og þá sérstaklega í suðurríkjum Bandaríkjanna, þar sem þetta ,,magalyf” var fundið upp. Mint Julep samanstóð fyrst einfaldlega af krömdum mintulaufum, vatni og sykri blönduðu út í áfengan drykk og átti að vera allra meina bót. Ekki var einn ákveðinn áfengur drykkur notaður, eiginlega bara það sem hendi var næst; gin, brandí, viskí og romm t.d. Síðar komst á sú hefð að nota eingöngu búrbonviskí í drykkinn. 

Flesthver hanastél eiga sitt eigið glas og skópst sú hefð kringum Mint Julep að bera það fram í ílátum gerðum úr áli, jafnvel silfri eða tini, sem var ekki á allra færi að nálgast, hvorki veitingastaða né almennings. Drykkurinn er borinn fram með miklum klaka og er eftirsóknarvert að fá fram hrím utan á ílátið til að láta drykkinn líta út sem mest svalandi, því það getur jú verið ansi heitt í Kentucky. Því var drykkurinn heldur í dýrari kantinum og sóttust aðalsmenn frekar í hann en hinn almenni borgari. Veðreiðar höfða vissulega til fólks í fínni kantinum og upphófst sú hefð að spariklæddir áhorfendur Kentucky Derby reiðleikanna slógu um sig með þessu fína hanastéli.