Adobe Reserva Chardonnay 2018

Víngarðurinn segir;

Tvisvar áður hafa eldri árgangar af Adobe Reserve Chardonnay frá víngerðinni Emiliana í Chile komið inn á borð Víngarðsins (og reyndar fjölmörg önnur vín frá þessari sömu víngerð, enda er úrvalið af þeim gott hérna á landi) og í bæði skiptin fengu þau þrjár og hálfa stjörnu. Núverandi árgangur, 2018 er hinsvegar sá besti sem ég hef bragðað frá þeim og það er gaman að segja frá því að ég ætla að úthluta henni fjórðu stjörnunni.
Þetta er gyllt vín að sjá og hefur meðalopinn ilm af sætri sítrónu, soðnum eplum, perum, steinaávöxtum, perubrjóstsykri, austurlenskum ávöxtum og þá aðallega ananas. Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið með ferska og góða sýru og örlitla fiturönd á mjöðmunum sem gerir það sérlega ljúffengt. Þarna má greina sítrónubúðing, perur, austurlenska ávexti, greipaldin og perubrjóstsykur. Þetta er kannski ekki persónulegt íhugunarvín en það er ákaflega auðdrekkanlegt og ljúffengt og hefur nokkuð skýr upprunaeinkenni af chileskum Chardonnay. Ekki spillir að vínið er lífrænt. Hafið það með allskonar forréttum, feitari fiskréttum, skeldýrum og ljósu fuglakjöti.
Verð kr. 2.099.- Frábær kaup.

Share Post