Willm Reserve Pinot Gris 2019

 

 

Víngarðurinn segir;

Það er gaman að bera saman Pinot Gris vínin frá Villa Wolf annarsvegar og Willm hinsvegar, en þau síðarnefndu eru gerð handan Rínarfljótsins í Alsace. Og þótt Loosen sæki stílfyrirmyndir sínar til Frakklands er yfirbragð þeirra að einhverju leiti litað af dálæti Þýðverskra á mikilli sýru en þessi þrúga hefur einmitt tilhneigingu til að tapa henn hratt þegar hún þroskast. Pinot Gris-vínið frá Willm hefur verið fastagestur í Víngarðinum undanfarin ár og nánast ætíð fengið svipaða dóma sem segir manni að gæðin haldast stöðug hjá þessari fínu víngerð.

Það er strágyllt að lit með grábleika tóna og meðalopna angan sem er afar dæmigerð en þar má rekast á niðursoðna ávexti, perujógúrt, vanillubúðin, niðursoðnar apríkósur, hvít blóm og búttaða og kryddaða tóna sem minna að einhverju leiti á reykelsi. Það er svo örlítið sætkennt en á móti þessari sætu er reyndar fín sýra og þarna eru niðursoðnu ávextirnir í aðalhlutverki ásamt perujógúrt, pipar, vanillu og steinefnum sem minna á byssupúður. Alltaf traust og afar ljúffengt vín sem er ögn sýruminna en Villa Wolf, en hefur á móti breiðari undirstöður. Passar með eiginlega öllu nema kannski súkkulaðiköku.

Verð kr. 2.899.- Mjög góð kaup.

Post Tags
Share Post