Willm Pinot Gris Reserve 2020

 

 

Vínsíðurnar segja;

Það virðist oft gleymast hvað vín frá Alsace eru frábær og þó svo að ég hafi verið að dásama Riesling þrúguna fyrr á árinu þá er svo margt annað frá Alsace sem er yndislegt, eitt af því er Pinot Gris. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Pinot Gris sama þrúga og Pinot Grigio á Ítalíu en munurinn á þessum vínum gæti ekki verið meiri. Meðan að Pinot Grigio gefur af sér oft á tíðum frekar hlutlaus og óspennandi vín (þó svo að það séu auðvitað til mörg frábær vín líka) þá er Pinot Grigio frá Alsace bragðmikil og með risa persónuleika. Einnig eru þau einstaklega matarvæn og má alveg færa rök fyrir því að þau séu fjölhæfustu hvítvín þegar kemur að matarpörunum. Ætla allavega að skjalfesta það hér að ekkert annað vín passar betur með hamborgarhryggnum en Pinot Gris frá Alsace.

Þetta vín er ljósgyllt á litinn með opinn og gríðarlega aðlaðandi ilm af hunangsmelónu, sítrus, gulum blómum gulum eplum og perubrjóstsykur. Ferskt og ilmríkt. Í munni er það nokkuð þétt með góðan ferskleika sem styður vel við bakið á víninu. Örlítill sætuvottur sem er dæmigerður fyrir Pinot Gris og yndislegur ávöxtur. Flott jafnvægi í víninu og nokkuð langt. Ekki drekka of kalt og hafið það með hamborgarhryggnum.

Okkar álit: Vel gert og frísklegt Pinot Gris sem er dæmigert í alla staði. Matarvín.Verð 2.899

Post Tags
Share Post