Emiliana Adobe Chardonnay Reserva 2021

 

 

Emiliana víngerðin í Chile hefur lengi verið í miklum metum hjá mér fyrir margar sakir en þó aðallega fyrir það að framleiða vönduð og stílhrein vín sem eru ofboðslega aðgengileg. Það skemmir svo ekki fyrir að víngerðin er með mjög svo vandaða umhverfisstefnu og eru öll vínin úr Adobe línunni, sem og reyndar flest vín þeirra, lífrænt ræktuð. Toppvínið þeirra Coyam fann leið sína til mín í desember og er óhætt að mæla með því frábæra víni. Hér erum við með brakandi ferskt Chardonnay 2021 og er ágætt að minna á að uppskeran sunnan við miðbaug er hinu meginn á dagatalinu samanborið við lönd norðan við miðbaug. Uppskeran í Chile á sér þ.a.l. stað í Mars til Apríl í stað September til Október.

Vínið er ljósstrágyllt á litinn með opinn og frísklegann ilm af nýslegnu grasi, lime, greip í byrjun en fljótlega koma svo fram kunnuglegir suðrænir ávextir á borð við mangó, apríkósu og hunangsmelónu. Afskaplega ljúfur og aðgengilegur ilmur. Það er svo miðlungsbragðmikið, frísklegt en á sama tíma milt í munni með sama suðræna ávöxt og var að finna í nefinu. Fínasta bygging og þokkalega langt í munni.

Okkar álit: Nokkuð einfalt en stílhreint og virkilega heiðarlegt Chardonnay.

Verð 2.199 kr

Post Tags
Share Post