Vidal-Fleury Cotes du Rhone 2015

Vinotek segir;

Vínhúsið Vidal-Fleury er það vínhús Rhone sem hefur verið hvað lengst í samfelldum rekstri eða frá því á átjándu öld. Það er staðsett í bænum Ampuis, fyrir neðan hlíðar Cote-Rotie en í þessu víni eru það þrúgur sunnar af Rhone-svæðinu sem eru notaðar. Nánar um Vidal-Fleury má lesa í þessari frásögn af heimsókn okkar þangað sem er hér. Það er Grenache ríkjandi í rauða Cotes-du-Rhone víninu, um 65% af blöndunni en restin Syrah, Carignan og Mourvédre. Þetta er kröftugt Cotes-du-Rhone með fína fyllingu, dökkur kirsuberjaávöxtur, dökkt súkklaði, smá fjós, þurrkaðar kryddjurtir og örlítil vanilla. Hörkufínt vín.

2.499 krónur. Frábær kaup. Vín með lambi, naut og ostum.

Víngarðurinn segir;

Þetta er þriðji árgangurinn af Vidal-Fleury Côtes-du-Rhône sem kemur inn á borð Víngarðsins. 2012 og 2013 fengu báðir **** en þessi árgangur er ögn minni og ójafnari um sig þótt hann sé ekki í neinni órafjarlægð frá hinum tveimur. Það er aðallega úr Grenache en þarna eru líka þrúgurnar Syrah, Mourvédre og Carignan. Það hefur ríflega meðaldjúpan, purpurarauðan lit og afar unglega angan af rauðum berjum, krækiberjasultu, plómu, tússpenna, pipar og brenndum sykri. Þetta er dálítið fjólublár ilmur sem minnir óneitanlega á tunnusýni og það er vel mögulegt að þetta vín muni á næstu mánuðum öðlast það jafnvægi sem maður er vanur að fá hjá Vidal-Fleury.

Í munni er það með töluverða fyllingu með áberandi tanníngrind og góða sýru en, rétt einsog í nefinu, er það ungt og fjólublátt og gæti átt eftir að jafna sig. Þarna eru rauð og dökk sultuð ber, lakkrís, plóma, pipar og fjólur. Ágætis hversdagsvín sem ég verð eiginlega að smakka aftur í sumar og athuga þá hvort það er ekki orðið rólegra og komið með örlítið meiri fullorðinsbrag. Hafið með hversdagsmatnum, pottréttir, pasta, pítsur og norður-afrískur matur eru fín með svona vínum.

Verð kr. 2.499.- Góð kaup.

Share Post