Chateau Lamothe Vincent Heritage 2015

Víngarðurinn segir;

Árgangarnir 2010 og 2014 hafa báðir fengið fjórar stjörnur hérna í Víngarðinum í gegnum tíðina (árgangurinn 2010 var bara framúrskarandi) og árgangurinn 2015 er ekki ósvipaður. Sem fyrr er hér á ferðinni afar nútímalegur Bordeaux sem minnir um margt á Nýjaheims-vín og núna er alkóhólið orðið full mikið fyrir minn smekk, en það heldur samt sem áður sínum fjórum stjörnum.

Það er ríflega meðaldjúpt og plómurautt á lit og rétt ríflega meðalopið í nefinu með angan sem minnir á plómusultu, grillaða papriku, sólberjahlaup, kaffi, tússpenna, rommrúsínur, vanillu og stappaðan banana. Ekki alveg dæmigert Bordeaux en samt sem áður fínasti ilmur. Í munni er það ríflega meðalbragðmikið með fína sýru, mjúk og þétt tannín en meira extrakterað en flest það sem maður á að venjast frá þessum slóðum. Þarna má greina plómusultu, krækiber, brómber, kaffi, brenndan sykur, vanillu og rommrúsínur. Minnir dálítið á Bordeaux-blöndu frá Chile eða álíka heitum slóðum. Hafið með lambi og nauti og þetta vín þolir alveg grill og bragðmeiri mat.

Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.

Share Post