Vidal Fleury GSM 2015

Vinotek segir;

Skammstöfunin GSM var lengi vel samnefnari yfir farsíma á fyrstu árum þess fyrirbæris og um svipað leyti var sama skammstöfun einnig að ryðja sér rúms í vínheiminum. Hún stendur þar fyrir þrúgurnar Grenache, Syrah og Mourvédre. Þær eru allar mikið notaðar í suðurhluta Frakklands og ekkert nýtt að þeim sé blandað saman. Það voru hins vegar Ástralir sem tóku upp á því að markaðssetja þennan þrúgukokteil sem GSM og fleiri hafa siðan farið að taka þann sið upp. Það á til dæmis við um franska vínhúsið Vidal-Fleury í Rhone sem hefur leikið sér að skammstöfuninni og framleiðir þrjú GSM-vín, rautt, hvítt og rósa. Hér er rauðvínið í boði en um helmingur GSM-blöndunnar samanstendur af Grenache-þrúgunni. Liturinn er bjartur og rauður og vínið angar af rauðum berjum, fjólum og kryddjurtum, Það er bjart, svolítið skarpt í munni, tannískt og þurrt, enn ungt. Nýtur sín best með mat og þar nýtur það sín vel. Flottur suður-Frakki.

2.199 krónur. Frábær kaup. Með grilluðu kjöti og ostum.

Share Post