Hann á afmæli í dag!

Það var þyrstur mannfjöldi – og langþreyttur á ranglátu bjórbanni – sem myndaði langar biðraðir við útsölustaði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fyrsta dag marsmánaðar á því Herrans ári 1989. Þann daginn lauk nefnilega 74 ára gömlu bjórbanni á Íslandi og landsmönnum leyfðist loks á ný að versla sér bjór.

Milliríkjaviðskipti til bjargar, nú sem oftar

Mörgum kann að þykja það einkennilegt, ekki síst þegar litið er til baka, að bjórinn hafi verið bannaður – hann, sem er með lægsta áfengisinnihaldið miðað við rúmmál – á meðan vandræðalaust var að nálgast léttvín, styrkt vín og meira að segja brennivín, allan þann tíma sem bjórinn var bannaður. Í raun var þannig í pottinn búið að allt áfengið var bannað með lögum árið 1915, en milliríkjaviðskipti höfðu sín áhrif á bannið þegar leið á.

Spánverjar brjóta ísinn

Spánverjar voru nefnilega ekki hressir með að Íslendingar keyptu ekki lengur af þeim vín og hótuðu að hætta alfarið að kaupa saltfisk frá Íslandi nema vín yrði keypt í staðinn. Hér var um þjóðarhagsmuni að ræða því tekjurnar af umræddri saltfisksölu voru verulegar, og voru þeir því teknir yfir hina meintu lýðheilsuhagsmuni sem áttu að liggja banninu til grundvallar. Afráðið var því á Alþingi að gefa undanþágu sem leyfði eingöngu innflutning á víni frá Spáni og tók hún gildi árið 1922.

Svo var allt leyft – nema bjórinn!

1. febrúar 1935 tóku svo gildi lög sem leyfðu innflutning og sölu á öllum áfengum drykkjum nema sterkum bjór, þ.e.a.s. með sterkara áfengisinnihald en 2,25% af rúmmáli. Þetta er óneitanlega furðuleg lagasetning þegar haft er í huga að áfengisbanninu frá 1915 hefur þegar þarna er komið við sögu verið í sjálfu sér aflétt, nema að því leytinu að bjórinn – sem er jú veikasti áfengisdrykkurinn – er bannaður eftir sem áður. Það þarf ekki að koma á óvart að þegar á þessum tíma hafi mörgum þótt lögin orðin að ólögum.

Loksins, loksins!

Það er ekki fyrr en heilum 54 árum síðar sem Íslendingar mega löglega kaupa sér bjór í verslunum hér á landi. Þegar þarna var komið var bannið farið að snúast upp í afkáraskap, sem meðal annars lýsti sér í því að aðeins flugáhafnir máttu kaupa bjór í Fríhöfninni í Keflavík, en enginn utan hennar, galið sem það nú er. Þá tóku öldurhús borgarinnar sum hver upp á þeirri skondnu nýbreytni að selja svokallað bjórlíki, sem var léttöl styrkt með brennivíni. Þetta hljómar allt saman hlægilega í dag, en einstaklingar fæddir á bjórbannstímabilinu 1915 – 1989 lifðu margir hverjir ævina á enda án þess að geta labbað út á pöbb til að fá sér einn kaldan. Það er sorgleg og hreint óskiljanleg skerðing á mannréttindum.

 

Þeir riðu á vaðið – bjórtegundirnar 1. mars 1989

Forvitnir kunna að spyrja hvaða bjórtegundir var að finna í hillum áfengisverslana ríkisins þegar stóri dagurinn rann upp. Það var hinn ameríski Budweiser, Tuborg, Löwenbräu, Egils Gull, Kaiser og Sanitas Lageröl. Þeir tveir síðastnefndu eru horfnir úr Vínbúðunum fyrir margt löngu en hinir eru þar enn, og nú í félagsskap ótalmargra annarra bjórtegunda frá ýmsum löndum og af margs konar bjórstílum.


Og vinsælasti bjórinn var…

Eins og við var að búast var bjórneyslan mikil fyrsta kastið enda um menningarsöguleg tímamót að ræða fyrir landsmenn. Neyslan dróst aftur á móti fljótlega saman og nýjabrumið varði ekki ýkja lengi. Til marks um það þá drukku landsmenn rúmlega 3 milljónir lítra af bjór fyrstu fjóra mánuðina eftir að bjórinn var leyfður á ný. Þá sex mánuði sem eftir voru þá af árinu 1989 drukku þeir um 3,5 milljónir lítra. Til gamans má svo geta þess að í árdaga hins nýleyfða bjórs hér á landi var það hinn þýski Löwenbräu sem bar höfuð og herðar yfir aðra bjóra hvað vinsældir varðar. Reyndar var það hinn bandaríski Budweiser sem seldist mest fyrsta daginn og hreinlega kláraðist, en hann lauk árinu 1989 í þriðja sæti. Þess má líka geta að Beck’s kom til sölu í „Ríkinu” seinna um sumarið og náði strax miklum vinsældum. Reyndar varð hann svo vinsæll að hann reyndist í 5. sæti í lok árs yfir mest seldu bjóra á landinu, þrátt fyrir að byrja mun seinna í sölu en aðrir bjórar á listanum. Óhætt er að segja að ýmislegt, eiginlega næstum allt, hefur breyst hvað varðar úrval bjórs í boði hér á landi og áhuga Íslendinga á bjór, en enn þann dag í dag er Löwenbräu mest seldi þýski bjórinn og Beck’s er í öðru sæti.

Að fagna af skynsemi og ábyrgð

Það er því rétt að halda 1. mars hátíðlegan hvert ár því þá tók áfengismenning Íslendinga stórstígum framförum, svo ekki sé meira sagt. „Ein lítil löggjöf fyrir Alþingi, eitt risaskref í átt að betri vínmenningu”, eins og þar stendur. En margir börðust fyrir þessum sjálfsögðu mannréttindum, meiripartinn af 20. öldinni, án þess að sjá árangur af erfiði sínu í lifandi lífi. Það er því rétt að lyfta glasi af góðum bjór, hugsa hlýtt til þeirra hugsjónamanna og –kvenna sem lögðu sitt af mörkum fyrir málstaðinn og njóta svo bjórsins með ábyrgum og skynsamlegum hætti.

Gleðilegan bjórdag, kæru vinir, og skál!

Share Post