Parés Baltà Blanc de Pacs 2016

Víngarðurinn segir;

Blanc de Pacs frá vinum mínum í víngerðinni Parés Baltà hefur fengið nokkuð reglulegar smakkanir hjá Víngarðinum í gegnum tíðina (og reyndar mörgumsinnum áður en Víngarðurinn var opnaður almenningi) og hversu mjög sem mér þykir vænt um Joan Cusiné og fjölskylduna þá hef ég átt erfitt með að finna neistan sem kveikir í mér þegar ég smakka þetta vín. Til upprifjunar þá hafa árgangarnir 2012 og 2014 báðir fengið *** og það er því gleðiefni, finnst mér, að árgangurinn 2016 sé að mínu viti sá ferskasti og besti sem ég hef prófað.

Þetta hvítvín er lífrænt einsog flest sem frá Parés Balta kemur (sumt er meir að segja lífeflt, eða bíódýnamískt) og er blandað úr hinum hefðbundnu katalónsku þrúgum Parellada, Xarello og Macabeu (sem kallast líka Viura). Fjölskyldan talar reyndar sín á milli á Katalónsku sem er tungumál, skyldast hinu forna Occitane-máli sem talað var og er í Languecoc í Suður-Frakklandi, en það er önnur saga. Það hefur gylltan lit og rétt tæplega meðalopna angan af hunangi, sitrónum, olíukenndum steinefnum og appelsínublómum. Þetta er kunnuglegur ilmur og ef maður bætti við gerjunartónum þá væri þetta ansi nálægt hinu hefðbundna Cava-freyðivíni.

Í munni er það sýruríkt, létt og þurrt með einfaldan prófíl en hið ágætasta jafnvægi og keim sem minnir á sírónu, appelsínur, læm, hunang og olíukennd steinefni. Það er líka svolítið einsog kolsýrulaust Cava í munni en það má gjarnan vera um 8-9°C til að njóta sín sem best. Of mikið kælt verður það dálítið herpt og mónótónískt. Hafið með léttum forréttum, ljósu pasta og puttamat.

Verð kr. 1.999.- Góð kaup.

Share Post