Roquette & Cazes Douro 2014

Víngarðurinn segir;

Að þessu ljómandi góða portúgalska rauðvíni standa tvær vel kunnar fjölskyldur (rétt einsog nafnið gefur til kynna): Roquette-fjölskyldan sem á og rekur hið kunna vínhús Quinta do Crasto og Cazes-fjölskyldan sem haldið hefur um stjórnina á Chateau Lynch-Bages í Bordeaux undanfarna áratugi. Samvinna þeirra hófst fyrir um 15 árum síðan og árið 2005 kom fram fyrsti árgangurinn af víninu Xisto 2003, sem vakti mikla athygli. Þremur árum síðar kom svo þetta vín sem við fjöllum um hér, á markað og það hefur ekki síður fengið jákvæðar og góðar viðtökur.

Það er blandað úr þrúgunum Touriga National, Touriga Franca og Tinta Roriz (Tempranillo) og það fær að þroskast í 18 mánuði í frönskum eikartunnum svo útkoman er vel póleruð og fínleg þrátt fyrir alla vöðvana. Það hefur mjög þéttan og djúpan, plómurauðan lit og ríflega meðalopna angan af sultuðum blá- og aðalbláberjum, plómusultu, sprittlegnum kirsuberjum, súkkulaði, reyktri papriku, vanillu, svörtu tei og steinefnum. Það er vel bragðmikið með töluverða sýru og mjúk og mikil tannín sem tryggja víninu töluverða bragðlengd. Það hefur keim af sultuðum bláberjum, Mon Chéri-molum, lakkrís, vanillu, dökku súkkulaði, svörtu tei og steinefnum. Það borgar sig að kæla þetta vín niður í amk 16-17°C fyrir neyslu og við það verður það mun frísklegra og rauðara og þá munar ekki nema hársbreidd að það fái hálfu stjörnuna í viðbót. Vel matarvænt og mikið rauðvín sem má gjarnan hafa með bragðmiklum kjötréttum, grillmat og bragðmiklum Miðjarðarhafsmat.

Verð kr. 3.799.- Mjög góð kaup

Share Post