Laurent Miquel Solas Chardonnay 2015

Víngarðurinn segir;

Rétt einsog að hið rauða L’Artisan frá Laurent Miquel hefur Chardonnay-vínið sem gekk undir því nafni fengið nýtt útlit og nýtt nafn og kallast nú Solas. Innihaldið hefur samt ekki breyst neitt að ráði og er einsog áður vel gert og neytendavænt en er hvorki sérlega flókið né persónulegt.

Fyrir jólin kom reyndar L’Artisan Chardonnay 2015 inn á borð til mín (***1/2) og nú, einsog þá, hefur vínið gylltan lit og meðalopinn ilm af suðrænum Chardonnay þar sem finna má sætan sítrus, steinaávexti, peru, hunang, soðin eða bökuð epli og búttaða jógúrttóna. Það er meðalbragðmikið og þurrt, með góða sýru og fínasta jafnvægi þótt það hafi hvorki mikla endingu né hátt flækjustig. Þarna eru sítrusávextir, pera, niðursoðnir ávextir, soðin epli, hunang og mjólkurfita. Auðdrekkanlegt og nokkuð matarvænt alhliða hvítvín sem er fínt með meðalfeitum fiski, ljósu kjöti, ýmsum forréttum og svo er það ágætt bara eitt og sér.

Verð kr. 2.199.- Mjög góð kaup.

Share Post