Lealtanza Reserva 2012

 

 

Víngarðurinn segir;

„Víngerðin Bodegas Altanza á sér ekki langa sögu í Rioja en um þessar mundir er hún rétt rúmlega tuttugu ára gömul og rétt einsog flestar nýjar víngerðir á þessum slóðum þá eru vínin sem koma frá henni í dæmigerðum nútímastíl. Í Rioja þýðir það að vínin eru undantekningarlítið eingöngu úr Tempranillo, þrúgurnar eru tíndar við hámarksþroska og eftir gerjun eru vínin þroskuð í nýjum, frönskum eikartunnum. Allt þetta má glöggt finna í þessu frábæra víni sem óhætt er að mæla með. Það býr yfir djúprauðum lit og er komið með örlitla múrsteinstóna enda er þetta vín rúmlega sjö ára gamalt. Það er svo ríflega meðalopið í nefinu og þar má finna þéttan rauðan ávöxt og þá aðallega jarðarberjasultu, plómur, dökkt súkkulaði, vanillu, lakkrís, þurrkaðan appelsínubörk, brenndan sykur, Mon Chéri-mola og sveskjur. Þetta er fjölskrúðugur og síbreytilegur ilmur, dæmigerður fyrir nútímastílinn í Rioja og afar ljúffengur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, afar mjúkt og langvarandi með ferska og góða sýru þrátt fyrir þroskann og mikið af mjúkum tannínum. Þarna er jarðarberjasulta, fersk bláber, brenndur sykur, lakkrís, Mon Chéri-molar, vanilla og þurrkaðir ávextir. Þegar saman koma góður árgangur og vönduð víngerð er útkoman algerlega framúrskarandi. Hafið þetta vín með allskonar betri kjötréttum, íslenska lambið er auðvitað frábært með þessu víni en naut og svín koma fast á hæla þess. Verð kr. 2.999.- Frábær kaup. “

Post Tags
Share Post