Lamothe Vincent Merlot Cabernet Franc Reserve 2108
Vínsíðurnar segja:
Við höfum lengi verið miklir aðdáendur Lamothe Vincent Héritage og hefur það vín verið tíður gestur á námskeiðum hjá okkur enda afskaplega vel heppnað vín árgang eftir árgang. Hér erum við með nýjung á hillum vínbúðanna og er þetta þónokkuð frábrugðið hinu skemmtilega Héritage að því leiti að þetta er blanda af Merlot (80%) og Cabernet Franc (20%) og mundi það samkvæmt mínum bókum flokkast undir hægribakka blöndu, ekki ólíkt því sem sést í Pomerol og Saint-Émilion. Ávöxturinn vex á leirkenndum og járnríkum jarðvegi sem hentar Merlot afskaplega vel. Vínið fær svo að hvíla í 9 mánuði í frönskum eikartunnum “sur lie”.
Vínið er dimmrautt á litinn og er það feimið í fyrstu en opnast þó fljótlega í nefi. Afar dæmigerður Merlot ilmur með þéttum kirsuberja- og plómuilm í fyrstu en einnig er að finna sólber, lakkrís, jarðveg, eukaliptus, krydd og ljúfa eikartóna bakvið þetta allt saman. Nokkuð margslunginn ilmur. Í munni er það nokkuð kraftmikið og svolítið búttað með mjúk tannín sem passa vel inní heildina og ágætis sýra til að styðja við bakið á þessum þéttleika.
VERÐ: 2.699 kr.
Nokkuð sígilt Merlot. Mjúkt og nokkuð bragðmikið.