Hess Select North Coast Cabernet Sauvignon 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

Fyrir jólin var hér dómur um hið frábæra Allomi Napa Cabernet 2016 (*****) frá Hess-samsteypunni og fyrir tveimur árum var einnig dómur um þetta sama vín, Select North Coast 2014, sem þá fékk einnig fjórar stjörnur. Hér hafa líka fengist bæði Pinot Noir, Chardonnay og Sauvignon Blanc í þessari sömu línu og þau hafa öll fengið fjórar stjörnur í Víngarðinum í gegnum tíðina. Af þessu má ráða að þetta eru traust og ljúffeng vín, en ég verð að viðurkenna að ég sakna örlítið meiri persónuleika í þeim þótt ljúfleiki þeirra sé ekki dregin í efa.

Þessi Cabernet hefur þéttan og djúp-fjólurauðan lit og meðalopinn ilm af sólberjum, bláberjasultu, toffí, rauðum sultuðum berjum, súkkulaði, rökum skógarbotni og einhverju sem minnir á vel hangið nautakjöt (og er ekki óþekkt í betri rauðvíninum sem eru komin með örlítinn þroska). Það er svo rétt ríflega meðalbragðmikið með mjúkan og sólþroskaðan ávöxt og pússuð tannín. Mín vegna mætti sýran vera örlítið frísklegri en þarna eru svo sólberjahlaup, rauð og sultuð ber, toffí, vanilla og mjólkursúkkulaði. Mjög áferðarfallegt og viðmótsþýtt rauðvín sem er gott með flestum kjötréttum en ætli einfalt lamb væri ekki best með því.

Verð kr. 2.999.- Mjög góð kaup.

Post Tags
Share Post