Gratavinum Silvestris 2017

 

 

Víngarðurinn segir;

„Cusiné-fjölskyldan í Pénedes er óþreytandi að útvíkka hugmyndir okkar um spænsk vín, en við hér á Íslandi eigum að þekkja einföldu vínin þeirra einsog Blanc de Pacs og Mas Petit, lífræn vín sem hún gerir undir nafninu Parés Balta í Pénedes. Fjölskyldan á einnig víngarð í Ribera del Duero og undir nafninu Dominio Romano hefur vín frá þeim verið selt í búðum hérna (það heitir Camino Romano og árgangurinn 2014 fékk fjóra og hálfa stjörnu hérna í Víngarðinum á sínum tíma). Við bæinn Gratallops í Priorat gera þau einnig vín og þar kallast víngerðin Gratavinum og þaðan er einmitt þetta vín sem ég ætla fjalla um í dag, Silvestris sem er ekki bara lífrænt (einsog allt sem þau gera) heldur einnig lífeflt (bíódýnamískt) og inniheldur þar að auki ekki súlfít, svo það mætti skilgreina það sem náttúruvín. Það er annað tveggja náttúruvína sem Cusiné-fjölskyldan gerir en hitt er Amphora Roja, hvítvín úr þrúgunni Xarel-lo sem þau gera í Pénedes.

Silvestris er blandað úr þrúgunum Grenache (sem kallast þarna á katalónsku Garnatxa) og Cabernet Sauvignon og er dimm-fjólurautt að lit og hefur rétt ríflega meðalopna angan sem er afar flókin og síbreytileg. Þarna má meðal annars greina dökk ber, apótekaralakkrís, súkkulaði, beiskar möndlur, kirsuber í spritti, mómold, steinefni, romm-rúsínur, brenndan sykur, leður, svartan pipar og tússpenna en þá er bara fátt upp talið því þetta vín er svolítið einsog stór skotkaka á flugeldasýningu og maður veit aldrei hvað kemur næst. Það er svo bragðmikið, mjúkt, þétt og lifandi með mikið af afar póleruðum tannínum og langvarandi bragðprófíl. Þarna er meðal annars hægt að finna krækiber, sprittlegin kirsuber, lakkrís, rommrúsínur, steinefni, svartan pipar og brenndan sykur. Verulega ferskt og spennandi rauðvín sem munar litlu að fái fullt hús hjá mér og það er ólíkt flestu ef ekki öllu sem þið hafið smakkað. Ég var svo heppinn að smakka akkúrat þetta vín (það er að segja þennan árgang) fyrir ári síðan úti á Spáni og ég verð að segja að vínið hefur vaxið síðan þá sem segir manni að kannski toppar það með fimm stjörnur einhverntíman á næstu mánuðum. Hafið með allskonar bragðmiklum kjötréttum, fín nautasteik er auðvitað skotheld með þessu víni og einnig lamb en hér var það haft með hægelduðu svíni og var ferlega gott. Vín sem er vissulega fyrir lengra komna en ég skora á alla að smakka þetta stórkostlega vín, það verður enginn svikinn. Verð kr. 4.499.- Mjög góð kaup.“

Post Tags
Share Post