Víngarðurinn segir;

 

„Ég get staðfastlega vottað að Grand og Premier Cru-vínin frá Dom. des Malandes, Vau de Vey og Les Clos (þau fást hér) eru algerlega framúrskarandi, sem maður er svosem ekkert hissa á. En hvað þessi víngerð nær oft að gera afbragðsgóð Petit Chablis vín kemur manni eiginlega í opna skjöldu. Maður er nebbnilega hissa þegar maður rekst á framleiðendur sem ekki ná að gera óviðjafnleg vín á fyrstaflokks ekrum í góðum árum (slíkt gerist), en aftur og aftur finnast mér „venjulegu“ vínin, Chablis og Petit Chablis frá Domaine de Malandes ekki síður vera ferlega vel gerð og þetta hér er gott dæmi um slíkt.

Það hefur strágylltan lit og rétt tæplega meðalopna angan af hvítum blómum, peru, soðnum eplum, melónu, sítrónubúðing, steinaávöxtum og kalkríkri jörð en allt þetta eru serk og upprunaleg einkenni á ungum Chablis. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með fínustu lengd og elegant ávöxt af ekki dýrara víni að vera. Þarna má greina sítrónur, steinaávexti, melónu, peru, soðin eða bökuð epli, steinefni og sítrónubúðing. Dæmigert, ljúffengt og viðmótsþýtt hvítvín sem er skothelt með fisk, skelfisk og meðalbragðmiklum forréttum.

Verð kr. 2.699.- Frábær kaup.“

 

Vinotek segir; 

„Domaine de Malandes er lítið fjölskyldurekið vínhús í Chablis sem lengi hefur verið í uppáhaldi hjá okkur enda vínin þaðan nær undantekningalaust virkilega vel gerð og aðlaðandi. Og það eru ekki bara stóru Premier og Grand Cru-vínin frá Malandes sem eru flott, Petit Chablis-vínið er hreinasta afbragð. Munurinn á Chablis og Petit Chablis er landfræðilegur eða jafnvel öllu heldur jarðfræðilegur, Petit Chablis eru ekrur þar sem kalksteinninn sem er svo einkennandi fyrir jarðveginn er frá yngri jarðfræðilegu tímabili en engu að síður milljóna ára gamall.Vínið er ljóst og ungt, í nefi þroskuð gul epli, smá sítrónubörkur, sæt gul melóna og bananar. Milt og ferskt, sýrumikið en mjúkt. Virkilega flott vín. 2.699 krónur. Frábær kaup. Vín fyrir rækjukokteilinn, bleikjuna og hörpuskel.“

Share Post