Cune Crianza 2016

 

 

Víngarðurinn segir;

„Ein af þessum stóru og traustu víngerðum í Rioja er CUNE sem hefur gengið í gegnum mikla og góða endurnýjun á sinni víngerð, núna á tuttugustu og fyrstu öldinni og þótt hún sé yfirhöfuð að bjóða hefðbundin vín þá eru þau undir greinilegum áhrifum frá nútímastílnum. Bestu vínin sem frá henni hafa komið eru tildæmis Cune Imperial Reservan sem ég hef nokkrum sinnum tekið fyrir hérna í Víngarðinum og er alltaf feykna gott. Hefðbundna Reservan og Crianzan fást nú hérna og óhætt er að mæla með þeim báðum.

Þessi Crianza er að stærstum hluta til úr Tempranillo og hefur rétt tæplega meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og örlitla múrsteinstóna. Það er meðalopið með dæmigerða angan af kirsuberjum, hindberjum, sultuðum krækiberjum, negul. lakkrís og þurrkuðum appelsínuberki. Það er svo meðalbragðmikið með góða sýru, gott jafnvægi og mjúk tannín. Þarna eru krækiber, brómber, kirsuber, lakkrís og þurrkaður appelsínubörkur. Ekki flókið, en vel byggt og neysluvænt rauðvín sem passar með nánast öllum hversdagsmat, forréttum, fiski og kjöti. Kælið það aðeins niður fyrir neyslu, það versnar ekki að vera 15°-17°C. Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup. „

Post Tags
Share Post