Chateau Lamothe-Vincent Heritage 2018
Víngarðurinn segir;
Hér er kominn nýr árgangur af þessu góða Bordeaux-víni sem ég veit fyrir víst að á sér marga trausta aðdáendur hér á landi. Það er blandað sem áður úr Merlot og Cabernet Sauvignon og ber skilgreininguna Bordeaux Superieur sem einfaldlega þýðir að það inniheldur að lágmarki ákveðið magn af alkóhóli, en það er eitt sem þetta vín skortir ekki, enda gert í opnum og gefandi nútímastíl.
Það er dimm-plómurautt að lit með rétt ríflega meðalopna angan sem er afar dæmigerð. Þarna eru sultaðar plómur, sólber, toffí, gerjuð heyrúlla. mómold og, það sem helst dregur niður jafnvægið í þessu víni, er að sprittið losnar full auðveldlega frá ávextinum. Það er svo nokkuð bragðmikið með fína sýru og þétt tannín og keim af plómum, sólberjum, toffí, leirkenndum steinefnum og dökku súkkulaði. Afar notendavænt Bordeaux-vín og nokkuð stórt sem ég veit að heillar marga. Það er best með allskonar kjötmeti, aðallega lambi og nauti en er líka fínt með svíni og hrossi, svo eitthvað sé nefnt. Traust og vel gert vín.
Verð kr. 2.799.- Frábær kaup.