Camino Romano Dominio Romano

 

 

Víngarðurinn segir;

Víngerðin Parés Balta sem kunnust er fyrir frábær lífræn vín er hún gerir suður af Barcelona (og þá aðallega í kringum bæinn Pacs del Penedés) en þau öll eru í stöðugri sókn, gæðalega séð. Þessi víngerð er einnig með útibú í Priorat (Gratavinum) og svo í Ribera del Duero sem kallast Dominio Romano og þaðan kemur þetta vín.

Það er, líktog öll vínin þeirra í Penedés, lífrænt og lagað úr þrúgunni Tinto Fino sem einnig er þekkt sem Tempranillo. Það er dimm-plómurautt að lit hefur ríflega meðalopinn ilm af plómu, krækiberjasultu, kirsuberjum, lakkrís, steinefnum, kakó, pipar og einhverjum austurlenskum kryddum. Þessi ilmur er reyndar nokkuð fjarri þeim staðlaða og sætkennda eikar/toffí-ilm sem flestir tengja við Ribera del Duero en ég verð að segja að hann er hreint frábær fyrir mig og síbreytilegur, einsog og ilmur gæðavína er ætíð. Það er svo vel bragðmikið, þétt og þurrt með afar ferska sýru, fínkornótt tannín og endist lengi. Þarna eru meðal annars kirsuber, krækiber, plóma, hindber, svart te, kakó, pipar og rykug steinefni en þetta vín verður reyndar stöðugt flóknara með hverjum árgangi. Frábært og persónulegt Ribera-vín og einsog öll stærri vín sem Parés Balta framleiðir þá er það langhlaupari og þolir vel að leggjast í kjallarann og þroskast næstu árin. Ég hef td nýlega smakkað gamlan árgang af Camino Romano sem var einsog því hefði verið tappað á flöskuna í fyrra. Hafið það með allskonar bragðmeiri kjötréttum.

Verð kr. 3.699.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post