Adobe Reserva Rosé 2020

 

 

Víngarðurinn segir;

Yfirhöfuð hef ég verið afar ánægður með lífrænu Adobe-línuna frá víngerðinni Emiliana í Chile og þótt þetta séu eftilvill ekki persónulegustu og flóknustu vínin á markaðnum, þá eru þau heilbrigð, vel gerð og síðast en ekki síst, býsna vel prísuð. Adobe-rósavínið hefur verið í hillunum í nokkur ár og, sem betur fer, þá hefur það alltaf verið eitt af þeim vínum þar sem nýjasti árgangurinn er í boði um leið og hann kemur á markað, sem ég kann vel að meta.

Það er upprunið í Rapel-dalnum og blandað úr þrúgunum Shiraz og Cabernet Sauvignon (sumar heimildir nefna að það sé einnig eitthvað að Merlot í blöndunni, en það er óstaðfest) og hefur fölan, silungableikan lit sem minnir meira á hin ljósu rósavín frá Provence fremur en hin þéttu rósavín frá Spáni og Ítalíu. Það hefur meðalopinn ilm af jarðarberjum, peru, sætri sítrónu, mangó, papaya, þroskuðum ananas og feitum vaxtónum. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með fínt jafnvægi og endingin er merkilega góð. Það er ákaflega auðdrekkanlegt með sumarlegan keim af jarðarberjum, rauðu greipaldin, ananas, peru, soðnum eplum, sítrónu og búttuðum vaxtónum. Alveg hreint afbragðs rósavín sem hefur það mikinn kjarna að það ræður við allskonar mat; puttamat, flesta forrétti, salöt, feitan fisk, ljóst fuglakjöt, sushi og jafnvel rautt kjöt. Svo er það alveg sérlega gott bara eitt og sér sem lystauki. Það verður svo að geta þess að þetta vín fæst líka í kassa og þótt ég hefi ekki smakkað það í þetta sinn er óhætt að mæla með því líka. Svona ljúffengt rósavín sem er líka svona vel prísað kemst mjög nálægt því að vera bestu rósavínskaupin um þessar mundir. Það er ykkar að dæma.

Verð kr. 2.199.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post