Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Spaghetti með möndlupestói

Marta Rún ritar:

Fyrir 4

Hráefni:

½ bolli ristaðar möndlur, ristaðar í 10 mínútur í 200° ofni
¾ bolli sólþurrkaðir tómatar
1 lúka steinselja
1 lúka basilika
2 hvítlauksgeirar
½ tsk chiliflögur
½ tsk salt
1/3 bolli ólífuolía
¼ bolli rifinn parmesan ostur
400g spaghetti
100 g burrata eða mozzarella ostur

Aðferð:

  1. Setjið ristuðu möndlurnar í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur.
  2. Bætið tómötum, steinselju, basiliku, hvítlauk, chilliflögum og salti útí matvinnsluvélina og búið til mauk sem minnir á gróft hnetusmjör. Það er betra að hafa maukið aðeins gróft.
  3. Færið pestóið yfir í stóra skál og rífið parmesan ost útí og blandið saman.
  4. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum og bætið smá salti út í vatnið við suðu.
  5. Þegar pastað er tilbúið takið 1 bolla af pastavatninu frá og sigtið restinu af vatninu frá.
  6. Hellið pasta vatninu sem þið tókuð til hliðar út í pestóið smátt og smátt þangað til að pestóið er orðið mjúkt og rjómakennt.
  7. Blandið þá pastanu saman við pestóið og rífið burrata eða mozarella bita yfir ásamt ferskri basiliku og parmesan osti. Einnig er gott að hafa sólþurrkaða tómata.

 

Með þessum rétt mælir Vínó með Ramon Roqueta Garnacha

Vínótek segir;

Einhver bestu kaupin í hilllum vínbúðana undanfarin ár hefur verið Ramon Roqueta Reservan sem er blandað úr Tempranillo og Cabernet Sauvignon og svo því sé haldið til haga þá fékk árgangurinn 2010 þrjár og hálfa stjörnu hérna í Víngarðinum á sínum tíma, en árgangarnir 2012, 2013 og 2014 allir fjórar stjörnur.  Sé það tekið með í reikninginn að vínið er undir tvöþúsund krónum þá hljóta það að teljast ein öruggustu og bestu kaupin á Íslandi.

Þetta vín er hinsvegar lagað úr þrúgunni Garnacha (sama þrúga og hin franska Grenache) og kemur frá Katalóníu, rétt einsog hin vínin frá Ramon Roqueta.  Það hefur meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er afar dæmigerð fyrir Garnacha; kirsuber, hindber og jarðarber, fylltur lakkrís og Mon Chéri-molar í bland við létt-reykta viðar- eða jarðartóna.  Það er rétt ríflega meðalbragðmikið í munni með fína sýru og sætan og svolítið alkóhólríkan grunn.  Þarna eru kirsuber, hindber, Mon Chéri-molar, lakkrískonfekt, karamella og kryddgrös.  Fínasta hversdagsvín en auðvitað ekkert tiltakanlega fínlegt, þrúgan og aldurinn bera það einhvernvegin með sér, en er prýðlegt með allskonar bragðmeiri hversdagsmat, pottréttum, pasta, grilli og pítsum.

Verð kr. 1.899.- Mjög góð kaup.

Share Post