Lambafille með smjörbökuðum rósmarín kartöflum, piparostasósu og perusalati

Fyrir 2

Hráefni

Lambafille með fiturönd, 500 g

Piparostur, 50 g

Rjómi, 250 ml

Lambakraftur, 2 tsk / Oscar

Rósmarín ferskt, 6 g

Timian ferskt, 4 g

Kartöflur, 450 g

Hvítlaukur, 4 rif

Klettasalat, 50 g

Pera, 1 stk

Rauðlaukur, 1 stk lítill

Valhnetur, 40 g

Sítrónusafi, 1 msk

Hunang, 1 msk

Ólífuolía, 2 msk

Aðferð

Takið kjötið úr kæli 1 klst áður en elda á matinn.

Forhitið ofn í 180°C með blæstri

Rífið piparost með rifjárni og setjið í lítinn pott ásamt rjóma og lambakrafti. Bræðið ostinn við vægan hita og látið sósuna malla rólega á meðan unnið er í öðru. Varist að láta sósuna sjóða. Smakkið til með salti og pipar.

Skerið kartöflur í jafnar munnbitastærðir. Setjið 1 líter af vatni og 20 g af salti í pott og náið upp suðu. Bætið kartöflunum út í pottinn og sjóðið þar til  kartöflurnar eru mjúkar í gegn, sirka 10 mín. Hellið kartöflunum í sigti og látið gufa í stutta stund.

Týnið laufin af rósmarínstilkunum og saxið smátt (geymið stilkana). Pressið 2 hvítlauksrif. Bræðið 20 g af smjöri í pottinum sem kartöflurnar voru soðnar í og bætið rósmarín og pressuðum hvítlauk út í. 

Bætið kartöflunum út í pottinn og veltið þeim varlega upp úr bræddu smjörinu þar til þær eru vel huldar smjöri. Dreifið kartöflunum yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í 20-25 mín eða þar til þær eru fallega gylltar. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.

Skerið rákir í fituna á kjötinu en varist að fara ekki alla leið í gegn. Saltið og piprið kjötið rausnarlega. Kremjið 2 hvítlauksrif með höndunum.

Hitið olíu í pönnu við meðalháan hita. Bætið kjötinu út á pönnuna ásamt 30 g af smjöri, rósmarínstilkunum, timian og 2 hvítlauksrifjum. Steikið kjötið á fituhliðinni í 4 mín eða þar til puran er orðin fallega gyllt og færið svo í eldfast mót. 

Dreypið svolitlu af krydduðu smjörinu yfir kjötið og bakið svo í miðjum ofni í 10-12 mín eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 60°C. Leyfið kjötinu að hvíla í 10 mín áður en skorið er í það, kjarnhiti kjötsins mun hækka um nokkrar gráður á meðan það hvílir.

Pískið saman hunang, sítrónusafa og ólífuolíu. Sneiðið perur og lauk. Setjið perur lauk, klettasalat og valhnetur í skál ásamt hunangs- sítrónudressingu og blandið vel saman.

Vínó mælir með: M. Chapoutier Belleruche Cotes du Rhone með þessum rétt. 

Uppskrift: Matur og Myndir